138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:55]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Sennilega lendir sá á verðlaunapalli í sparðatíningi sem kemur með stærsta sparðið, og að koma með Evrópusambandið ofan í þá ræðu sem ég flutti hér áðan finnst mér vera risavaxið sparð. Þegar það er dauðans alvara hvort við samþykkjum þann samning sem liggur hér fyrir eða ekki, er það ofvaxið mínum skilningi, og það verður hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson að fyrirgefa mér, hvernig í dauðanum ég á að gera grein fyrir Evrópusambandinu og áhrifum þess, kostum og göllum í sambandi við það mál.

Hin spurningin var hvort ég sem hef barist gegn tilteknum samningi sem fyrirvarar hafa síðan verið smíðaðir við, frá byrjun, vilji nú láta samþykkja hann.

Ég sagði það eins skýrt og ég mögulega gat áðan að við ættum tvo kosti, að samþykkja eða að hafna. Og ég get ekki séð að við eigum lengur þess kost að hafna þessum samningi og leggja á þann fjallveg sem bíður okkar ef við ætlum að „ignorera“ kúganir Breta og Hollendinga og kúganir Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Þá blasir það við mér að heiðin er orðin ófær, það er of seint. Við gátum lagt á heiðina í sumar, (Forseti hringir.) við getum það ekki lengur.