138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:00]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni um að Evrópusambandið hefur ekki sýnt okkur mikinn hlýhug í þessu máli. En það hafa ekki heldur frændur okkar og bræður á Norðurlöndum gert, ekki Svíar, ekki Norðmenn. Einu þjóðirnar sem hafa sýnt okkur velvild í þessu máli að mínu mati eru Færeyingar og þeirra verður lengi minnst í Íslandssögunni fyrir þeirra framlag í þessu máli. Sömuleiðis komu Pólverjar til liðs við okkur, að vísu með skilyrðum, en það var enginn sem sagði að þeir þyrftu að gera það. (Gripið fram í.)

Ég get ekki og mér dettur ekki í hug að eyða ævi minni í að hatast við þær þjóðir sem studdu okkur ekki í þessu máli. Við höfum haldið illa á þessu máli og það er okkur að kenna, það er ekki þeim að kenna sem ekki hafa stutt okkur til þessa. Við verðum þá að skilja við þetta mál, ég og hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson, sáttir við að vera ekki sammála. Ég segi: Við erum búin að eyða sumrinu, það er sumarið sem er tími til ferðalaga, við eyddum sumrinu hérna í gagnslaust þras um einhverja fyrirvara á þennan ómögulega samning í staðinn fyrir að vísa honum strax heim til föðurhúsanna. Við eyddum sumrinu í þetta. Við erum búin að sitja af okkur öll tækifæri. Heiðin er ófær. Það er blindbylur á heiðinni. Þótt Norðlendingar hafi lagt á Holtavörðuheiðina í manndrápsveðri hvað eftir annað (Gripið fram í.) ættu þeir nú að athuga þau bein sem skína þar í moldarflögum enn þann dag í dag.