138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:32]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf):

Hæstv. forseti. Hér erum við að nýju komin með til umræðu hið svokallaða Icesave-samkomulag í framhaldi af langri umræðu í sumar, þar sem við afgreiddum ríkisábyrgð með verulegum fyrirvörum. Ég ætla að segja það í upphafi að auðvitað harma ég það mjög að málið skuli hafa þurft að koma hér aftur til umræðu í þinginu. Ég batt við það miklar vonir að okkur hefði tekist að rata þann vandrataða veg að setja mjög öfluga fyrirvara um leið og við gáfum skýr skilaboð um að við ætluðum að standa við skuldbindingar okkar og ljúka málinu.

Allir þeir sem voru við það borð á þeim tíma vita að í þá vinnu var lagt með það sem forsendu að við mundum ganga frá samningum, við mundum standa við skuldbindingar okkar en, eins og fram hefur komið í umræðunni áður, að við mundum gera það með þeim hætti að það væri sem allra bærilegast fyrir íslenska þjóð. Það kom svo í ljós, og við þurfum að ræða það betur, að samningsaðilar okkar, þeir aðilar sem eru búnir að greiða skuldbindingar íslensku bankanna bæði í Hollandi og Bretlandi og gera kröfu á að við stöndum skil á lágmarksgreiðslum á tryggingu, eru ekki sáttir við með hvaða hætti var gengið frá þessum fyrirvörum.

Ég verð að viðurkenna að þegar ég lagði af stað í þessa vinnu nú í vor eftir að hafa verið á þinginu frá því 2007 og eftir að hafa tekið þátt í ríkisstjórnarsamstarfi Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks, hef ég stundum velt því fyrir mér: Mikið óskaplega var maður mikill græningi inni á þessu þingi að hafa tekið mark á þeim mönnum sem þá töluðu. Þá töluðu menn um að það væri óhjákvæmilegt að ganga til samninga. Það töluðu allir um það á þeim tíma og Framsókn gerir það enn þá. Þá töluðu menn um að það hefði verið óhjákvæmilegt að setja neyðarlög, við kæmumst ekki hjá því að ganga frá samningum. Það komu drög að samningum, þeim var ýtt út af borðinu. Það komu yfirlýsingar vegna þess að við vorum beitt ofbeldi þá líka, þ.e. að alþjóðasamfélagið var ekki tilbúið að standa á bak við okkur á þeim tíma og við fengum ekki eðlilegar fyrirgreiðslur. Það gerðist strax í október á síðasta ári hjá þeirri ríkisstjórn sem við vorum í (Gripið fram í.) og við berum ábyrgð á, hv. þm. Vigdís Hauksdóttir.

Við höfum aldrei reynt að firra okkur ábyrgð á því. En ég skal viðurkenna það hreinskilnislega að ég veit ekkert með hvaða flokki ég vann á þeim tíma miðað við hvernig hann lét svo síðar og hljóp frá því sem ég hélt að við ættum að taka ábyrgð á á þeim tíma. Það er staðreynd sem við stöndum frammi fyrir. (Gripið fram í.) Sjálfstæðisflokkurinn kom inn með alls konar yfirlýsingar um að þetta væri óhjákvæmilegt, það væri ekki hægt að fara dómstólaleið, og við tókum þátt í þessu á þeim tíma. (Gripið fram í.) — Það er þingsályktunartillaga. Nei, við gerðum þetta sjálfviljug og berum fulla ábyrgð á því, ég ætla ekki að reyna að koma mér undan því. En þetta varð til þess að samþykkt var þingsályktunartillaga á þingi 5. desember. Það var ákveðið þar að ganga til samninga. Það voru umræður um það hvernig ætti að ganga frá því. Það var búið að skipa samninganefnd. Hún var skipuð embættismönnum frá öllum ráðuneytum. Formaðurinn var úr fjármálaráðuneytinu, Baldur Guðlaugsson. Þessi vinna var öll sett af stað á þeim tíma. Allt ferlið var ákveðið af miklum meiri hluta þingmanna hér í desember. Síðan er skipuð samninganefnd að nýju þegar minnihlutastjórn kom 1. febrúar. Það var sama nefndin nema það var skipt um formann, enda var þá búið að skipta um ráðuneytisstjóra í fjármálaráðuneytinu og menn héldu áfram í þessari vinnu. Út úr þessu kom samningur sem ríkisstjórnin hafði unnið í fullu umboði þingsins. Hún kom með þann samning í þingið í júní sl.

Það hefur svo sem oft komið fram áður að þegar samningurinn kom í þingið var ég einn af þeim þingmönnum sem aldrei tjáðu sig um samninginn vegna þess að ég vissi á þeim tíma, og það kom líka fram í umræðunni þegar samningurinn var kynntur, að það ætti eftir að vinna öll gögn í málinu og samningurinn kæmi til kasta þingsins. Það gerði hann líka í byrjun júlí. Þá fyrst kom hann til Alþingis Íslendinga. Svo fór málið til fjárlaganefndar og frá upphafi heyrðust miklar gagnrýnisraddir sem sögðu að í þessari samningsgerð hefðu menn horft um of á fjármálalega hlutann, á vaxtakjörin, á að fá frest til greiðslu, en týnt ákveðnum atriðum í þessu ferli. Það var sem sagt rætt í fjárlaganefnd strax frá upphafi og kom í ljós að það voru nokkur atriði sem við vildum endilega að væru skoðuð miklu betur.

Í fyrsta lagi voru það þessi Brussel-viðmið þar sem alþjóðasamfélagið hafði tekið ábyrgð á okkur, ætlaði að vinna með okkur að lausn málsins og tryggja að ekki yrði gengið of hart að íslenskum efnahag við lausn málsins. Mönnum fannst að þetta hefði týnst í samningunum og var strax rætt um það í fjárlaganefnd að reyna að ná þessu ákvæði með einhverjum hætti inn aftur þannig að við tryggðum okkur þau réttindi sem þar voru.

Það hafði líka gerst í þessari umræðu að menn höfðu breytt þessu frá því að þetta væri alþjóðlegur samningur á milli Hollendinga, Breta og Íslendinga yfir í að gera þetta að einkaréttarlegum samningi til þess að tryggingarsjóðurinn væri ábyrgur fyrir lántökunni. Það var m.a. gert til þess að viðhalda kröfunni sem við gátum haldið um að málið yrði með einhverjum hætti tekið fyrir dómstóla ef við gætum komið því þangað og látið reyna á hvort það væri ríkisábyrgð á skuldbindingum okkar. Við höfum frá upphafi haldið þeirri kröfu til haga og það er þar enn þá, þrátt fyrir þær breytingar sem koma inn í nýjasta frumvarpinu. Það var ein af þeim miklu forsendum sem settar voru inn í fyrirvarana.

Sjálfur hafði ég efasemdir um hvort setja ætti það inn í fyrirvarana einfaldlega vegna þess að það er ekkert í gamla samningnum sem tekur þann rétt af okkur, ekki heldur þeim nýja. Nú er þó búið að tryggja að allir aðilar skilja að við viljum halda þessu vakandi, það er skýrt. Ég hefði að mörgu leyti talið betra á þeim tíma að minnast ekkert á þetta heldur að halda þessu bara til haga því að við höfum gert það í öllu ferlinu. Það var ekkert í samningnum sem útilokaði að við gætum sótt rétt okkar. En gott og vel. Það var sett inn í fyrirvarana og gert með mjög skýrum hætti og þeim fyrirvara er haldið til haga hér þó að sé með örlítið öðrum hætti.

Þegar við unnum þetta í fjárlaganefnd voru fleiri atriði sem komu þarna inn. Inn komu efasemdir um friðhelgina og óttinn við að auðlindir okkar væru í hættu. Þar kom einnig gjaldfellingarákvæðið til umræðu. Allt þetta var farið skipulega í gegnum og menn settu fyrirvara til þess að tryggja að þessi ákvæði væru skýr. Þeir fyrirvarar halda allir í málinu enn þá, sem skiptir auðvitað miklu máli.

Ein aðalumræðan í fjárlaganefnd á þeim tíma var þó varðandi greiðslugetuna og greiðsluþolið. Það leiddi svo til þess að það var ákveðinn hópur sem tók frumkvæði í að vinna í því máli og við í fjárlaganefnd leyfðum viðkomandi aðilum, og óskuðum raunar eftir því, að vinna með þetta mál áfram. Við fylgdum því eftir til enda og tókum það inn í fyrirvarana þótt það væri ekkert endilega í sátt allra. Við sameinuðumst um lausn í því máli þótt menn hefðu ólíkar skoðanir á því hvað hefði verið best að gera í því máli einu og sér.

Það vita allir sem voru í fjárlaganefnd ef þeir vilja viðurkenna það að alveg fram á síðustu nóttina áður en fyrirvararnir voru samþykktir ræddum við orðalag. Þá voru mátaðar hugmyndir um hvort við ættum að fallast á þetta með því að vextir yrðu alltaf greiddir að lágmarki. Þá reiknuðum við út að það gæti orðið 20 milljarðar miðað við núverandi upplýsingar, það gæti þýtt að 10–20 milljarðar féllu þá á okkur á hverju ári að lágmarki. Ég ætla bara rétt að segja það að ef efnahagsástandið á Íslandi eftir 15 ár verður svo slakt að afborganir af láninu verða innan við 15 milljarðar miðað við verstu stöðu, hefur eitthvað mikið farið úrskeiðis. Þá verðum við hvort sem er komin í mikil vandræði og farin til viðræðna. (Gripið fram í.) Það er lágmarkið sem sett er, það er langt undir þeim mörkum, ef hv. þm. Pétur H. Blöndal vildi nú reikna það út fyrir okkur ef við værum að tala um — við skulum átta okkur á því að þetta eru 5,5% af þeim höfuðstól, gengistryggðum, sem verður þá. Það eru ekki vextir aftur í tímann. Og við skulum rétt vona að gengið verði ekki mikið verra en það er í dag þótt það sé alltaf hægt mála skrattann á vegginn.

Það var einmitt það sem við vorum að gera allan tímann. Við reiknuðum allan tímann með verstu útfærslum. Eitt gerðum við þó aldrei, og ég tek ábyrgð á því og tel það hafa verið ákveðin mistök, við reiknuðum aldrei hvaða afleiðingar það hefði að ganga ekki til samninga. Við kölluðum eftir skýrslu frá Seðlabankanum, fengum skýrslu frá fjármálaráðuneytinu, kölluðum eftir skýrslu frá Hagfræðistofnun. Við vorum alltaf að leita að verstu útkomu og útkoman var aldrei verri en svo að menn töldu að við gætum verið fær um að borga þetta, þeir settu að vísu ákveðnar forsendur. Við völdum þá leið sem hópur þingmanna lagði til, hún gerir mjög mikla kröfu um að hér sé hagvöxtur og vöxtur miðað 6% raunvexti á ákveðnu tímabili. Ég held að þrátt fyrir allt — og það væri gaman að sjá þá útreikninga, við munum örugglega skoða þá í fjárlaganefnd — að vextirnir verði innan við þessi mörk ef allt er eðlilegt á Íslandi.

Raunar er þetta eins og hæstv. utanríkisráðherra gerði grein fyrir áðan, að við höfum alltaf reiknað með því að þetta verði greitt að fullu fyrir 2024, að efnahagsástandið lagist það mikið. En auðvitað erum við … (Gripið fram í.) Ja, það má fullyrða það, menn geta leikið sér með svoleiðis orðalag, en ég ber ekki ótta í brjósti hvað það varðar þótt menn reyni að mála alltaf skrattann á vegginn.

Ég ætla bara að segja vegna síðustu ræðu hv. þm. Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar: Hver talar hvað niður? Að skríða á hnjánum og reyna að sannfæra þjóðir heims um að við séum svo bágstödd að við getum ekki borgað og staðið við skuldbindingar okkar, (Gripið fram í.) þar finnst mér menn gera allt of mikið úr. Það hefur líka áhrif á stöðu okkar þegar menn tala um að skuldaaukningin sé gríðarleg. Hafið þið áttað ykkur á hvað skuldaaukningin hefur minnkað við hrun bankanna? Hún fór úr 18.000 milljörðum niður í kannski um 3.000 milljarða. Þá var lánshæfismatið í þessu fína kapítalíska hagkerfi allt að AAA+ (Gripið fram í.) Nákvæmlega, það eru sömu skuldirnar og verið er að ræða hér þegar menn tala um 300% skuldir þjóðarbúsins, þá er verið að tala um prívatskuldir líka. Við skulum því reyna að nota sömu tölurnar.

Það sem ég dreg fram hér er að við völdum ákveðna leið. Við vissum alveg fram á síðustu nótt að við keyrðum mjög tæpt. Við vissum það nákvæmlega. Það voru tveir hlutir sem ég hafði áhyggjur af, annars vegar þetta með 2024, að við gerðum þá kröfu og við hættum við þá kröfu og höfðum hana ekki inni, að ríkisábyrgðin félli sjálfkrafa niður 2024. Við völdum alltaf sömu aðferðina, að það ætti að fara í viðræður. Það átti að fara í viðræður áður en við felldum niður ríkisábyrgð. Nú beita Hollendingar og Bretar þeirri aðferð á okkur sjálf og spurningin er: Getum við neitað því? Þeir nota sömu aðferðina á móti um hvort ríkisábyrgðin falli sjálfkrafa niður ef dómur fellur um skuldbindingu okkar til að greiða ríkisábyrgð, því miður, það hittir okkur því sjálf fyrir. Það hefði auðvitað verið betra að hafa það bara hreint og skýrt en þarna kemur það til baka.

Við vitum það líka, og það vita þeir sem unnu með mér í fjárlaganefnd næturnar á undan, að þegar við vorum búin að fá hjálp frá lögfræðingagengi við að skrifa textann bættum við inn í hann í lokin atriðinu varðandi árið 2024 og vissum að það var mjög tæpt.

En við höfðum hóp, ekki úr fjárlaganefndinni heldur víða annars staðar frá, sem gerði kröfur og ætlaði sér að fella þessa samninga. Þannig var Framsóknarflokkurinn í vinnunni allan tímann. Fulltrúar hans höfðu engan áhuga á því að taka þátt í þessari vinnu af neinni alvöru heldur héldu áfram að grugga vatnið eins og þeir mögulega gátu allan tímann. Þess vegna hef ég ekki tekið mikið mark á því þegar sá ágæti flokkur telur sig hafa verið einhvern frumherja í því að kalla fram upplýsingar í því máli, heldur þvert á móti, þó að þeir hafi ýmislegt lagt til í umræðunni.

Þetta er búið að vera mjög löng og ströng umræða. Allar staðreyndir eru þekktar. Eitt af því sem ég fékk frá alþjóðlegum ráðgjöfum — af því hér er sagt að menn hafi ekkert rætt við erlenda ráðgjafa og að aðeins sumir hafi gert það. Auðvitað kölluðum við erlenda ráðgjafa fyrir nefndina en af því þeir sögðu ekki réttu hlutina var ekkert að marka þá. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Þannig var þetta í nokkur skipti. Þá voru erlendir ráðgjafar ekki erlendir ráðgjafar. Þetta er svona svipað og þegar maður mætti á 200–300 manna ball til sveita og sá ekki stelpuna sem maður vildi sjá þá spurði maður: Er enginn á ballinu? Það er það sem gerðist af því það komu ekki réttar niðurstöður frá þessum úttektarfyrirtækjum, erlendu aðilum, þá töldu menn það ekki vera góða ráðgjöf.

Ágætur félagi minn hefur mikla reynslu í erlendu viðskiptalífi og bankastarfsemi á alþjóðlegum vettvangi. Hann sagði: Nú fóruð þið yfir mörkin. Það var þegar við gerðum kröfu um skriflega staðfestingu þjóðríkja varðandi fyrirvarana okkar. (Gripið fram í: Hafðirðu enga trú á …?) Ég hafði mikla trú á því og hafði unnið þetta mjög vel. Það sem ég er að benda á er að við vinnum í alþjóðlegu umhverfi og sumt gera menn ekki. (Gripið fram í: En þú gerðir það.) Ja, ég fór yfir mörkin varðandi lausnina, ég vissi alveg að ég fór tæpt, ég sagði frá því, hafði fyrirvara um það. Það má segja að ég hafi látið af minni einlægu sannfæringu til þess að ná breiðari sátt sem þó leiddi því miður ekki til að menn stæðu vaktina til enda og tækju ábyrgð á málinu.

En málið er sem sagt komið aftur. Ég ber engan kvíðboga fyrir því að leysa málið. Ég hef enga minnimáttarkennd gagnvart þessu máli. Ég hef fulla trú á íslenskri þjóð. Og eftir að hafa verið nýlega með 160 erlendum þjóðum þar sem umræðuefnið var mansal, þar sem umræðuefnið var að milljarður manna í heiminum sveltur, finnst mér við tala okkur illilega niður þegar við sitjum hér og vælum yfir því að við getum ekki ráðið við ákveðna hluti. Það felur ekki í sér að við eigum ekki að halda okkar rétti. Við getum alltaf gert það áfram.

Það hefur líka komið fram hér að ef okkur er misboðið er það nú einu sinni þannig að íslenska Alþingi getur hvenær sem er fellt þessa ríkisábyrgð úr gildi. Hafa menn ekkert áttað sig á því? (Gripið fram í.) Það er hægt að gera það líka en það er of mikil áhætta vegna þess að við höfum líka verið að meta hagsmuni og það er of mikil einföldun að láta eins og þeir hagsmunir hafi ráðist af einhverju öðru en hagsmunum íslensku þjóðarinnar og barnanna okkar, alveg jafnt hjá mér eins og öðrum þingmönnum. Ég tala um þetta (Forseti hringir.) svolítið hvasst hér vegna þess að mér finnst menn reyna að slá einhverjar pólitískar keilur á máli sem þeir ættu betur að taka þátt í að leysa. (Forseti hringir.)