138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:50]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég vildi vekja athygli á því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson verður að fara aðeins betur yfir samningana frá 5. júní vegna þess að þar er að finna mjög víðtæka yfirlýsingu um að Bretar eða Hollendingar verði ekki ábyrgir fyrir skaða sem íslenska ríkið hefur orðið fyrir vegna Landsbankans. Það ákvæði var tiltölulega mjög skýrt í samningunum frá 5. júní og hv. þingmaður getur farið yfir það þegar málið kemur aftur til fjárlaganefndar. Þá legg ég líka til að hv. þingmaður fari vel yfir samanburð á þeim fyrirvörum sem annars vegar voru samþykktir 28. ágúst og hann taldi viðunandi þá þótt hann segi nú að hann hafi keyrt tæpt gagnvart viðsemjendunum eða einhverju. Aðrir sem stóðu að þeim fyrirvörum töldu sig vera að gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar. Ég vona að hv. þingmaður muni skoða málið í því samhengi þegar málið kemur aftur til fjárlaganefndar (Forseti hringir.) vegna þess að hér getur verið um að ræða gríðarlega hagsmuni áratugi fram í tímann.