138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:56]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í anda þess sem við unnum í sumar geri ég ráð fyrir því að fyrsta verkið þegar við fáum málið í fjárlaganefnd verði að kalla eftir hugmyndum allra nefndarmanna á því hvernig þeir vilja vinna málið. Síðan verður að vega og meta og taka afstöðu til þess þegar þær óskir liggja fyrir og ákveða framhaldið í framhaldi af því.

Þar skiptir auðvitað gríðarlega miklu máli hvort það er einhver einlægni í því að leita einhverra leiða eða hvort menn ætla að grugga vatnið áfram eins og sumir gerðu á þeim tíma. Þá er ég ekki að tala um hv. þm. Kristján Þór Júlíusson eða þá sjálfstæðismenn sem þar voru inni sem unnu að málinu afar heilt þó þeir fengju ekki leyfi til að greiða málinu atkvæði í lokin. (Gripið fram í.)

Það er talað um óskilyrta ríkisábyrgð. (Gripið fram í.) Ég met það ekki þannig, ég nota ekki það orð. Þvert á móti tel ég að fyrirvararnir haldi langflestir en við skulum ræða það í fjárlaganefnd og fara yfir hvað plaggið þýðir. Það er búið að kynna það að hluta til í þinginu. (Gripið fram í.) Það er ágætt að hv. þingmaður (Forseti hringir.) skuli spyrja um hvort ég fái leyfi til að breyta því. (Forseti hringir.) Það er nákvæmlega þetta sem ég sagði (Forseti hringir.) þegar spurt var hver fengi leyfi til að greiða atkvæði.