138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:02]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vona að mér hafi misheyrst þegar hv. þingmaður sagði að Alþingi gæti fellt ríkisábyrgðina úr gildi. Ég segi ekki meira um það. Þá er ekkert að marka ríkisábyrgð frá Alþingi.

Hann segir: Ef allt er eðlilegt munum við borga. Það er einmitt málið. Ef allt er eðlilegt munum við borga. En það er þetta óeðlilega sem gæti gerst sem við reynum að tryggja þjóðina gegn og fyrirvarar Alþingis voru tryggingar sem nú er búið að falla frá. Þjóðin er ekki lengur tryggð. Ef enginn hagvöxtur verður á Íslandi þurfum við að borga vexti, 10, 15 milljarða, 20 milljarða, 30 milljarða á hverju einasta ári þó að við getum það ekki (Gripið fram í.) og við borgum aldrei höfuðstólinn, (Gripið fram í.) aldrei ef sú staða kemur upp. Þjóðin þarf að borga í áratugi, hugsanlega í 100 ár, en alltaf vexti, það er aldrei niðurgreiðsla á höfuðstól. Er þetta það sem hv. þingmaður vill sjá ef svo illa skyldi vilja til að hagvöxtur yrði enginn? En svo getum við auðvitað sagt að ef allt er eðlilegt gerist ekkert.