138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:04]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við höfum auðvitað mismunandi sýn á hvernig við nálgumst viðfangsefni þessa lífs. Ég gæti sest niður og velt því fyrir mér hvort sólin kæmi upp á morgun. Ég gæti velt því fyrir mér hvort börnin mín og barnabörnin mín gætu þurft að fá grautarúthlutun, hrísgrjón eða væru jafnvel komin í þá hættu að verða seld á milli þjóða til þrælkunar með þeim hætti sem við horfum á í heiminum. Ég hef enga trú á því að það gerist en ég hef enga vissu fyrir því. (REÁ: Ég held að það hafi enginn ætlað að setja bankana á hausinn.) Það var heldur ekki þannig. En ég bendi á að ég get búið til svartsýnismynd, það er ekkert sem bendir til, hv. þingmaður, að við ráðum ekki við þetta verkefni. Það varð niðurstaða allrar vinnu sumarsins og ég vil trúa því að það sé mögulegt að það sé betra fyrir okkur að ljúka þessu jafnvel með þeim breytingum sem þarna eru gerðar og að okkur sé það fyllilega óhætt. Við munum geta uppfyllt þær hugmyndir okkar um framtíðina að við getum lifað góðu lífi og átt hér gott líf og gott land fyrir barnabörnin okkar.