138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:06]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það stóð ekki til að borga eftir 2024? (Gripið fram í.) Þar tjáir hv. þingmaður sig um þá fyrirvara sem hann tók þátt í að útbúa fyrir nefndina. En þegar gengið var frá því í frumvarpi um ríkisábyrgð var skýrlega tekið fram að það ætti að setjast niður og ræða málin og afgreiða þau þar sem við tækjum afstöðu til þess hvort ríkisábyrgðin yrði framlengd, hvort við borguðum, hvernig og hve lengi. Nú er búið að taka þetta af með þeim hætti að það framlengist en þó þannig að fyrirvararnir verða áfram í gildi, þó þannig að við borgum vexti. Við metum það, skoðum hvaða afleiðingar það hefur. Ég held að mér sé fullkunnugt um hver áhættan er. Ég hef velt því svolítið fyrir mér þegar við höfum talað með þeim hætti sem við höfum gert í þinginu að við ætlum að byggja á því sem ég taldi að Hagfræðistofnun hefði sagt okkur að afkoma okkar byggðist á, að við gætum endurfjármagnað lánin, við gætum fengið viðskiptaaðila erlendis til að fjármagna fyrir okkur. Ef allir þessir aðilar mundu reikna með þeim formúlum sem hv. þm. Pétur H. Blöndal notar hér (Forseti hringir.) mundi ekki einn einasti þeirra fjárfesta á Íslandi (Forseti hringir.) í náinni framtíð, það væri allt of mikil áhætta.