138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:07]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr):

Frú forseti. Hér er ég komin til að ræða enn einu sinni hið hrútleiðinlega Icesave-mál. Ég er búin að fá algerlega nóg af þessu öllu, fjölmiðlasirkusnum í kringum þetta, ásökunum hv. þingmanna Vinstri grænna á hendur fyrri valdhöfum, einstrengingslegum yfirlýsingum samfylkingarfólks um siðferðislegar skyldur og alþjóðlegar skuldbindingar okkar, ofbeldi sem ákveðnir hv. þingmenn annars stjórnarflokksins urðu fyrir frá hinum, afneitun hrunaflokkanna, undirlægjuhættinum við Evrópusambandið, hinni endalausu bið eftir endurskoðun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, kúgunum Breta og Hollendinga. Ég er búin að fá upp í kok af þessu máli sem er að kljúfa þjóðina og sker á vináttubönd, skiptir fólki í fylkingar og kyndir undir skotgrafahernaði. Máli sem vofir yfir okkur öllum og getur knésett þjóðina, lokað hana inni í skuldafangelsi og gert okkur öll að skuldaþrælum. Ég veit að ég er ekki ein um að vera búin að fá nóg. Þjóðin er búin að fá allt of stóran skammt af þessu máli, máli sem er orðið eins konar táknmynd hrunsins, spýtan sem allt hangir á, fíllinn í stofunni sem þrengir svo að okkur að við getum ekki hreyft okkur og náum vart andanum. Við erum eins og laxinn sem hefur barist um fastur í önglinum en nú erum við orðin örmagna og auðveld bráð. En einmitt þá er hættan mest, einmitt núna megum við ekki gefast upp. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Frú forseti. Í sumar fór fram merkilegt starf. Þingmenn unnu saman eins og þeir væru loks í einu liði og þeir smíðuðu fyrirvara sem mér þóttu og þykja reyndar enn snilldarlegir. Í ræðu minni í sumar sagði ég að þeir væru tær snilld svo lengi sem þeir héldu. Hæstv. utanríkisráðherra veitti mér andsvar sem ég vil fá að grípa niður í, með leyfi forseta:

„Alþingi er fullvalda. Alþingi er fulltrúi þjóðarinnar allrar og það ræður fyrir Íslendingum. Því velti ég fyrir mér, af því að hv. þingmaður orðaði það svo að ganga yrði úr skugga um að fyrirvararnir héldu, þeir fyrirvarar sem Alþingi setur með meiri hluta á þingi hljóti að halda. Það er Alþingi sem tekur ákvarðanir um þetta mál fyrir hönd Íslendinga og enginn annar getur það. Ef þessir fyrirvarar eru þannig að þeir takmarka með einhverjum hætti ábyrgð íslenska ríkisins þá hlýtur niðurstaða íslenska þingsins um það að gilda. [...] Það er þingið sem ræður …“

Það sem svo gerðist var að ríkisstjórnin fór með lög, þau lög sem Alþingi setti í lok sumars, og bar þau undir Breta og Hollendinga. Þar voru fyrirvararnir, sem áttu svo sannarlega að halda að mati hæstv. utanríkisráðherra, tættir í sundur og eyðilagðir. Nú þurfum við að standa í lappirnar og halda áfram að berjast. Frú forseti. Uppgjöf er ekki í boði.