138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:29]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla bara að segja eitt um þetta, um þessa sameiginlegu yfirlýsingu Breta og Hollendinga með okkur Íslendingum: Þó svo að við höfum trú á því, alla vega einhver hér inni, að það þýði eitthvað verð ég bara að viðurkenna að yfirlýsingar Breta og Hollendinga eftir framgöngu þeirra í þessu efni skipta mig bara engu máli, (Gripið fram í.) ég tek bara ekkert mark á þeim, þeir hafa verið að kúga okkur.

Ef við hefðum bara samið um þetta á jafnréttisgrundvelli — en hvað gerist, frú forseti? (Gripið fram í.) Bretar og Hollendingar hafa verið að kúga okkur og það er nefnilega það sem við þurfum að átta okkur á og það er það sem við þurfum að draga fram í dagsljósið. Þeim er þá vorkunn, þeim einstaklingum og hæstv. fjármálaráðherra sem eru að reyna að leysa málið. Hann hefur alla mína samúð varðandi það hvernig þeir haga sér, þessir fjandsamlegu vinir okkar, og varðandi það hvernig þeir hafa beitt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Það er í stofnskrá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að ef hann misbeitir valdi sínu, eins og hann gerir klárlega í þessu máli að mínu viti, eigum við að sækja hann til saka. Við eigum bara að láta hann greiða okkur skaðabætur. Það liggur alveg fyrir og það kom skýrt fram í fjárlaganefnd hjá þekktum lögfræðingi að ef hann er brýtur hana er hann skaðabótaskyldur gagnvart íslenskri þjóð.

Hvað er í raun að gerast ef við horfum á þetta yfir heildina? Það sem er að gerast er að Bretar og Hollendingar, með hjálp Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, eru að sundra okkur hér inni vegna þess að það er þeirra markmið, í staðinn fyrir að við eigum öll að standa hér saman og vinna að hagsmunum þjóðarinnar, til góðs. En þessir ágætu menn komast upp með þetta, því miður. Það kom fram hér í andsvari hjá hæstv. forsætisráðherra að margar aðrar þjóðir, og það hefði komið henni á óvart, skiptu sér af þessari milliríkjadeilu sem er mjög erfið. (Forseti hringir.) Það er algjörlega ólíðandi. Ég gef því ekkert fyrir orð Hollendinga og Breta.