138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:31]
Horfa

Anna Margrét Guðjónsdóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir það með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að Bretar, Hollendingar og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hafa beitt okkur afli sem er óþægilegt að verða vitni að og ég ætla að vona að það verði ekki til að kljúfa þessa þjóð, ég vona að hún standi það af sér. Mér sýnist hún ætla að gera það.

Ég er ekki sammála hv. þm. Ásbirni Óttarssyni um að yfirlýsingin sem hann talaði um skipti ekki máli. Ég held að yfirlýsing sem þessi skipti verulega miklu máli í lausn málsins og að menn skuldbindi sig til að standa saman og viðurkenni um leið erfiða stöðu Íslendinga. Ég held að slík fjölþjóðleg yfirlýsing hljóti að skipta máli og reynast okkur ágætisvopn í baráttunni fram undan við að endurheimta eignir Landsbankans.