138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:34]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er Sjálfstæðisflokkurinn í dag. Hann spáir þjóðinni efnahagslegri óáran, ragnarökum og hann virðist í þessari umræðu líta á það sem sérstakt hlutverk sitt að telja kjark úr þjóðinni. Allur hans málflutningur byggir á því (KÞJ: Nei, ekki rétt.) að hér verði enginn hagvöxtur, hér stefni allt í glötun og hér verði dauði og djöfull í efnahagslegum efnum (Gripið fram í.) til framtíðar. (Gripið fram í.) Svona talar Sjálfstæðisflokkurinn í dag.

Hv. þingmaður spyr eftir því hvort menn hafi farið og kynnt öðrum ríkisstjórnum og þjóðhöfðingjum Icesave-málið og fyrirvarana. Þá svara ég bara fyrir mig, á síðustu fjórum vikum hef ég a.m.k. talað við þrjá þjóðhöfðingja beinlínis um Icesave-málið augliti til auglitis (VigH: Ekki með tölvupósti?) og 12–14 utanríkisráðherra Evrópusambandsríkjanna.

Þegar ég hef sagt það og ég sagði í sumar að það þyrfti skapandi hugsun til að rúma fyrirvarana innan laganna, segi ég það hins vegar, og það er alveg svart á hvítu: Það er auðveldara að rúma fyrirvarana eins og þeir eru núna komnir inn í samning og frumvarp. Ég flutti eða a.m.k. reyndi að flytja málefnalega ræðu — og hv. þingmaður svaraði mér með alveg rosalega málefnalegri ræðu af sinni hálfu — þar sem ég fór yfir fyrirvarana lið fyrir lið og mín rök fyrir því af hverju það er betur um þá búið utan einn af hinum efnahagslegu fyrirvörum. En staðreyndin er einfaldlega sú að fyrirvarar eins og Brussel-viðmiðin, eins og friðhelgisréttindin, náttúruauðlindirnar og eignir Seðlabankans eru komnir inn í samninginn. Dómstólafyrirvarinn, eins og ég færði rök fyrir í dag, er sterkari en hann var áður og mér finnst það furðu sæta þegar hv. þingmaður heldur að það þurfi lög frá Alþingi til að veita Alþingi heimild til að breyta lögum einhvern tíma í framtíðinni. Að sjálfsögðu ekki. (Forseti hringir.) Alþingi getur hvenær sem það vill takmarkað ríkisábyrgð. (ÞSa: Með samþykki hverra?)