138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:39]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil upplýsa hv. þingmann um það að mínir fundir eru allir skipulagðir fyrir fram, þeir standa í 20–60 mínútur. Þar er oft farið yfir fyrir fram ákveðin umræðuefni og lyftufundirnir og aðrir fundir í ýmsum skúmaskotum eru ekki taldir með. En frá miðju sumri held ég að ég hafi talað við nánast alla utanríkisráðherra Evrópusambands um þessi mál, við framkvæmdastjóra NATO nokkrum sinnum og marga fleiri ráðherra.

Hv. þingmaður kvartar undan málefnafæð. Ræða hans býður ekki upp á málefnalega umræðu. Ekki var það ég sem dró minnisblaðið frá því í október inn í þetta. (REÁ: Þú gerðir það í ræðu þinni.) Ég gerði það ekki. Fyrst hv. þingmaður nefnir það ætti hann kannski líka að velta fyrir sér drögum að minnisblaði um samning Breta sem menn stoppuðu. En ég vil hins vegar vera algerlega ærlegur. Ég sagði í dag að núverandi formaður Sjálfstæðisflokksins væri þessu aldrei sammála. Hvaða fyrirvarar styrktust? Ég tel að Ragnars Halls-ákvæðið sé sterkara en áður. Menn tefla gegn því að komið sé inn ákvæði um Evrópudómstólinn. (ÞKG: Ragnar telur það ekki.) Í lagaákvæðinu sem nú er í gildi er vísað til EES-reglna. Í greinargerð með því frumvarpi er skýrt tekið fram að þar sé m.a. átt við EFTA-dómstólinn. Nú er það komið þarna inn og þar segir hreint út að ef ekki er ósamræmi á milli afgreiðslu EFTA-dómstólsins og þar til bærs úrlausnaraðila, ég man ekki hvernig það er orðað, breytist samningurinn sjálfkrafa. Ef slitastjórnin tekur þessa ákvörðun sem kallast lagskipt röðun, gerist það sjálfkrafa líka ef enginn mótmælir því.

Varðandi dómstólaákvæðið færði ég rök fyrir því í dag að með þeim pólitíska stuðningi sem er að finna í hinni sameiginlegu viljayfirlýsingu sé viðspyrnan miklu sterkari en núverandi fyrirvari þannig að ég er þessarar skoðunar. Það sem út af stendur er tvennt, eins og ég sagði í dag: Vextirnir og það sem eftir er árið 2024. (Forseti hringir.) En eins og kom fram hjá formanni fjárlaganefndar var það aldrei skoðun fjárlaganefndar að það sem þá kynni að standa út af (Forseti hringir.) ætti að falla niður. (PHB: Það var skoðun hans.)