138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:59]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við færumst nær því að ganga frá samkomulagi um Icesave-samninginn. Það er auðvitað ekki hið sama og að fagna samningnum því að ekkert okkar er ánægt með að þurfa að gera hann. Hins vegar er löngu ljóst að það verður ekki umflúið. Best hefði auðvitað verið ef við hefðum borið gæfu til að ganga frá honum fyrr því að óvissan um framgang hans hefur óumflýjanlega frestað nauðsynlegum aðgerðum, aðgerðum sem eru nauðsynlegar til að ná trausti umheimsins. En traust er lykilatriði ef reisa á við efnahagslífið því að hvort sem okkur líka betur eða verr gerum við það ekki ein og óstudd.

Frá því að samningurinn var lagður fram fyrst hefur mikið verið rætt og ritað um hann. Fá mál hafa fengið aðra eins umfjöllun í þinginu. Efni stóðu vissulega til þessara vinnubragða vegna þess að þetta er ekki einungis erfiðasta milliríkjadeila sem við höfum nokkurn tíma átt í heldur hefur hún að sama skapi verið tilefni heiftúðugra árása á þing og ríkisstjórn. Skuldbindingarnar sem við undirgöngumst eru miklar þó að nýlegar fréttir af eignum Landsbankans geri ráð fyrir að þær séu nokkru meiri en áætlað var í sumar, sem hljóta auðvitað að vera góðar fréttir.

Ég sé ekki ástæðu til að fara í orðaleiki en auðvitað er það frumvarp sem hér er lagt fram breyting á því frumvarpi sem samþykkt var í sumar. En þetta frumvarp hefur í sér alla þá meginþætti sem meginmáli skipta í fyrirvörunum sem samþykktir voru í sumar. Ef þetta væri ekki breyting frá því sem var í sumar þyrftum við ekki að fjalla um það hér.

Ég sný mér nú að frumvarpinu og ætla að tæpa á nokkrum atriðum en þau verða ekki tæmandi. Eins og gengið er frá ríkisábyrgðinni í frumvarpinu er það skýrt skrifað og greinilega að Brussel-viðmiðin svokölluðu, um fordæmislausa stöðu efnahagsmála á Íslandi og þar með að lausn deilunnar, megi ekki koma í veg fyrir möguleika okkar á að endurreisa efnahagslífið. Brussel-viðmiðin eru viðurkennd af öllum þeim sem koma að samningnum. Það er gott. Í sama anda er viðurkennt og samþykkt að greiðslubyrðin verði aldrei meiri en 6% af uppsöfnuðum hagvexti, með öðrum orðum ekki hærri en svo að við getum staðið undir henni. Það er gott. Ef efnahagsástandið verður þannig að við höfum ekki greitt upp alla skuldina 2024 getum við framlengt til 2030 og svo aftur í fimm ár. Það er gott.

Vondu fréttirnar væru ef við þyrftum að nota þessi ákvæði. Ef við þurfum að nota þau höfum við í nánustu framtíð ekki náð þeim árangri í efnahagsstjórninni og endurreisninni sem við ætlum. Það hlýtur að vera keppikefli okkar allra að öll skuldin verði greidd á gjalddaga árið 2024. Kannski gerir heldur ekkert til að vona að við höfum jafnvel greitt lánið upp fyrr því að við megum ekki gleyma því ákvæði samningsins sem gerir okkur það kleift, náist betri samningar eða betri lánakjör einhvers staðar annars staðar.

Eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu hefur verið deilt um hvort greiðsluhámarkið sem sett var í lögin í sumar geti leitt til þess að eftirstöðvarnar féllu niður ef þær verða einhverjar 2024. Í mínum huga voru engar efasemdir um það. Ég taldi einsýnt að sá fyrirvari þýddi að þá yrði efnt til viðræðna um hvernig eftirstöðvarnar yrðu greiddar. Nú er óvissu þeirra sem við hana glímdu um þetta atriði eytt, lánstíminn lengist sjálfkrafa. Aftur ætla ég að leyfa mér að vona að við þurfum ekki að styðjast við þetta ákvæði. Við skulum ekki gleyma því að þrátt fyrir allt höfum við sjö afborgunarlaus ár sem við eigum að nota til að byggja upp.

Virðulegi forseti. Ég tek fyllilega undir með Evu Joly og því sem kom fram í grein hennar sem birtist í Morgunblaðinu einhvern tíma fyrr í haust, að regluverkið um fjármálastarfsemi í Evrópu sé meingallað. Hún á nú sæti á Evrópuþinginu og hefur að sínu helsta stefnumiði að þessu regluverki verði breytt. Vonandi tekst henni að afla þeim málstað þess fylgis sem dugar til breytinganna. Þá má og geta þess að framkvæmdastjórn Evrópusambandsins lagði í september fram tillögu um nýtt eftirlitskerfi með fjármálamörkuðum í Evrópu svo þar á bæ telja menn einnig að úrbóta sé þörf.

Þangað til breytingar verða samþykktar gilda reglurnar eins og þær voru þegar útrásarhetjurnar léku sér á ystu nöf, hröpuðu fram af og tóku íslenskt efnahagslíf með sér í fallinu. Við því getum við lítið gert að svo stöddu. Við getum stutt Evu Joly í baráttu hennar fyrir skynsamlegri reglum en við getum ekki fært klukkuna aftur.

Eftirlitskerfið hér á landi með fjármálastofnunum virkaði ekki. Þau verkfæri sem voru við höndina til að hafa stjórn á útþenslu bankanna voru ekki notuð. Þess vegna verðum við að taka á okkur þessa ábyrgð, það ítrekuðu ráðamenn þjóðarinnar án tvímæla sl. haust. Mér finnst það ótrúlegt — ég verð að endurtaka að það er hreint ótrúlegt að stjórnarandstaðan neiti að taka þátt í því að afgreiða þetta mál þegar það er orðið fullkomlega ljóst að við eigum ekki annars úrkosti. Það verður enn undarlegra í ljósi þess að hún hefur ekki bent á neina aðra færa leið. Hún mótmælir bara og bendir á dómstólaleiðina, (Gripið fram í.) sem mundi halda okkur í óvissu í mánuði, jafnvel ár enn, og halda okkur þess vegna áfram í þeirri efnahagslegu holu sem við erum stödd í. Það er ekki nóg að mótmæla ef fólk getur ekki bent á aðra kosti sem eru færir. Ef stjórnarandstaðan telur að við komumst af án þess að greiða þessa reikninga vil ég heyra hana segja það.

Virðulegi forseti. Ég get vel tekið undir það sem stundum er sagt í þessum ræðustól, að við eigum að tala kjark í þjóðina, en það er ekki nóg. Það er ekki nóg að tala, við verðum að gera hlutina. Við þurfum að samþykkja þetta frumvarp sem fyrir okkur liggur til að eyða óvissu.

Eftir því sem ég heyrði á fróðlegum fundi um erlenda fjárfestingu hér á landi í gær eru alls konar hugmyndir á lofti og sumar meira að segja nánast í hendi, um að ráðast hér í verkefni sem skapa störf og auðlegð til framtíðar, en vegna óvissunnar halda menn að sér höndum. Ég beini því þess vegna til hv. þingmanna að við reynum ekki bara að tala kjark í þjóðina heldur hefjumst handa við þau verkefni sem nauðsynleg eru til að þjóðin hafi trú á því að við ráðum við verkefnið sem við höfum verið kosin til og öðlist þannig kjark af verkum okkar.