138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:15]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur fyrir ágæta ræðu. Hún segir að við eigum ekki annarra kosta völ en að ganga að þessum afarkostum sem byggja á nauðungarsamningum, við erum neydd til að taka á okkur þessa skuld. Þetta er ekki skuld sem við höfum stofnað til, ekki skuld sem við eigum að borga. Hv. þingmaður segir líka að við eigum að eyða óvissu.

Í fyrsta lagi vil ég spyrja hv. þingmann: Telur hv. þingmaður að ríkisábyrgðin sem var samþykkt 28. ágúst sé fallin úr gildi vegna þess að Bretar og Hollendingar eru farnir að semja aftur og hafa í rauninni gefið út tilkynningu um að þeir fallist ekki á ríkisábyrgð eins og hún var og þau lög séu þá ógild?

Í öðru lagi vil ég spyrja, hv. þingmaður segir að hún vilji eyða óvissu. Nú á hún hugsanlega hús og bíl og hún tryggir sig fyrir bruna, árekstrum og fleiru. Það er ekki þar með sagt að hún reikni með því alla daga að lenda í árekstri eða að það kvikni í hjá henni. Hún verður ekki endilega svartsýn yfir því þótt hún vilji tryggja sig ef það skyldi koma upp. Nú segir hv. þingmaður: Það eru hverfandi líkur á því að eitthvað gerist hérna en það getur samt gerst. Og ef það gerist, er hv. þingmaður búin að steypa þjóðinni í þvílíkar hörmungar að ég geri ekki ráð fyrir að hún vilji horfa framan í þær. Ef það yrði enginn hagvöxtur í 10–15 ár, eins og gerðist reyndar í Japan eftir hrunið þar, getum við ekki borgað neitt en þá verðum við samt að borga 10–50 milljarða á ári í vaxtagreiðslur sem við getum ekki og við greiðum ekkert niður af láninu. Það vex og vex og við komum skríðandi á hnjánum til þessara ríkja og segjum: Því miður getum við ekki borgað og þá segja þeir: Við viljum fá Landsvirkjun hjá ykkur, við viljum fá fiskveiðiréttindi og fleira.