138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:22]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Hr):

Frú forseti. Áðan spurði ég hæstv. fjármálaráðherra beinskeyttrar spurningar. Ég spurði hvort þingið hefði eitthvert svigrúm til að breyta því frumvarpi sem hæstv. ráðherra lagði fyrir þingið er varðar Icesave. Af svörum hans er ekki annað að skilja en það sé ekki neitt svigrúm. Við þingmenn verðum því miður að horfast í augu við þann ömurlega veruleika að við búum ekki við raunverulega þrískiptingu valds. Ríkisstjórnin hefur náð meiri hluta um að samþykkja sín boð og eina hlutverk þingmanna meiri hlutans í þessari stöðu nú eins og svo oft áður er að vera stimpill.

Ég verð að viðurkenna, frú forseti, að ég skil eiginlega ekki af hverju okkur er gert að taka þátt í þessu leikhúsi fáránleikans. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Nenna ekki stjórnarliðar að halda áfram með málið? Nennir þjóðin ekki að beita sér lengur? Er hún búin að gleyma áhrifamætti sínum? Vaknaðu nú, þjóðin mín, og sýndu Bretum og Hollendingum, sýndu Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og öðrum þeim sem kúgað hafa okkur til að kyngja einhverju sem við erum ekki fær um að gera án þess að enda sem þrælar lánardrottna okkar í eigin landi. Við viljum tryggja að fyrirvari á þessari ríkisábyrgð á einkaskuld verði skilyrtur en ekki óskilyrtur eins og Bretar og Hollendingar krefja okkur um. Við verðum að breyta fyrirvörum í þessu nýja frumvarpi til að tryggja að við borgum ekki vexti ef hér er enginn hagvöxtur. Nú er búið að rífa í sundur öryggisnetið og okkur þingmönnum ber skylda til að tryggja að hér verði ekki samþykkt eitthvað sem stefnt getur þjóðarafkomu í voða um langa hríð. Ég skora á stjórnarliða sem og minni hlutann að hætta í þessum skotgrafarhernaði. Mér er alveg nákvæmlega sama hverjum er mest um að kenna. Ég vil vinna að lausnum með ykkur en það er algerlega óbærilegt að hlusta á þann málflutning sem átt hefur sér stað í dag. Finnum aftur þennan sérstæða og merkilega tón sem sleginn var í sumar, tón samstöðu. Það er það sem allir sem ég tala við þrá að heyra. Þeir þrá að heyra að við séum að berjast fyrir þeirra hagsmunum. Nú er ekki tími fyrir átök heldur samstöðu. Það er ljóst að það gengur ekki að samþykkja yfirgang framkvæmdarvaldsins. Sýnum nú að þingið er það sem það var skapað til að vera, æðsta stofnunin sem semur vönduð lög sem framkvæmdarvaldinu ber að fylgja eftir í fullkominni auðmýkt. Gefumst ekki upp, hvorki þing né þjóð. Höldum reisn okkar og sýnum að við látum ekki beygja okkur þótt Golíat sé vissulega stór. Gleymum ekki hver það var sem vann þann slag. En til að vinna það efnahagslega stríð sem við stöndum frammi fyrir verðum við að hætta að berjast innbyrðis. Við verðum að standa saman.