138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:55]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka síðasta ræðumanni fyrir afar áhugaverða ræðu og ég mun svo sannarlega kynna mér innihald þeirrar ræðu nánar því að eins og hann sagði réttilega eru þessi mál viðamikil og afar flókin á köflum. Ljóst er að hluti þeirra samninga sem hér er lagður enn og aftur fyrir okkur er á það flóknu laga- og hagfræðimáli að venjulegir þingmenn sem hafa ekki sérfræðikunnáttu þurfa í raun að fá aðstoð til að túlka það nákvæmlega, held ég.

Ég ætla í ræðu minni að fara ofan í nokkra þætti sem þó eru mjög augljósir í þessum samningi. Ég ætla líka að tala aðeins um Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, því að hann tengist þessu mjög sterkt og beint, og einnig fleiri hlutir sem tengjast þessu.

Þessi samningur er, að mér sýnist, verri en sá sem við fjölluðum um fyrir nokkrum vikum af nokkrum ástæðum. Það kemur fram í þessu plaggi og hér er skjalfest það sem við vitum öll, og fyrir þann heiðarleika sem þó er sýndur hér má í rauninni þakka, að tilurð þessara samninga, tilurð þessa máls má rekja til þess að vestræn ríki eru að kúga þjóð til að taka á sig skuldbindingar sem henni ber ekki að taka á sig. Evrópuríkin taka þátt í þessum leik til að vernda meingallað evrópskt regluverk. Þau eru búin að viðurkenna að það er gallað því að nú er verið að breyta því, ef ég veit rétt, og jafnvel búið að breyta því. Við eigum að borga herkostnaðinn þegar Evrópusambandið reynir að breiða yfir þá ágalla sem á regluverkinu eru og klaufaskapinn við setningu þessa regluverks og laganna.

Það hefur líka komið í ljós að alþjóðleg stofnun sem heitir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er lítið annað en tæki stórra eða stærri þjóða til þess að beita fyrir sig í rukkunum og innheimtu, tæki til að ná fram því sem þessar stóru, erlendu þjóðir vilja ná fram. Það er mjög einfalt að sjá af hverju það er. Þessi sjóður er vitanlega háður þessum erlendu ríkjum. Hann er háður því að fá fjármagn frá þeim. Það kemur því ekkert á óvart þegar Reuters-fréttastofan flytur fréttir af því sem kom svo fram á Morgunblaðsvefnum að Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, sé búinn að gefa Alþjóðagjaldeyrissjóðnum grænt ljós á að lána Íslandi.

Hún er grímulaus sú kúgun sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og þessar þjóðir beita Íslendinga. Mig langar að velta því upp sem kom fram í dag í ræðu — ég man ekki hjá hvaða ræðumanni — hvort rétt væri að sækja Alþjóðagjaldeyrissjóðinn til saka eða höfða mál á hendur honum og krefjast skaðabóta. Ég varpa því fram hvort hugsanlega sé rétt af hálfu Íslendinga að velta því fyrir sér hvort Evrópusambandið, eða í það minnsta Bretar og Hollendingar, séu hugsanlega skaðabótaskyldir gagnvart íslenskri þjóð fyrir að hafa beitt þessum kúgunum og misbeitt Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í sína þágu. Að því sögðu ætla ég að vitna í frétt eða skjal frá miðstöð fyrir rannsóknir á efnahags- og stjórnmálum sem er staðsett í Washington og kallast CEPR. Þar segir, með leyfi forseta:

„[Þetta skjal] leiðir í ljós að 31 af 41 landi sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur haft afskipti af hefur verið þvingað til að beita kreppudýpkandi hagstjórnaraðgerðum. Slíkar aðgerðir hafa þau áhrif í núverandi kreppu að auka á dýpt kreppunnar og gera hana verri. Þær aðgerðir sem fjallað er um í skjalinu og teljast kreppudýpkandi eru annaðhvort kreppudýpkandi fjármála- og gjaldeyrisaðgerðir (aðallega vaxtaákvarðanir og ákvarðanir um gengi gjaldmiðla).“

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Meira en áratug eftir að efnahagskreppan í Asíu beindi athyglinni að meiri háttar mistökum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins er AGS enn að gera svipuð mistök í mörgum löndum.“

Síðan segir í þessu skjali, með leyfi frú forseta:

„Á einu sviði hefur AGS staðið sig vel en það er 283 milljarða dollara sérstök dráttarréttindi (SDR) sem aðildarríkjum hafa verið boðin án skilyrða. Skilyrðislaus lán AGS og peningasprauta í hinn alþjóðlega efnahag eru nýtt og jákvætt skref af hálfu sjóðsins. Næsta skref ætti að afnema skaðleg skilyrði sem tengd eru öðrum lánum AGS,“ segir í skjalinu.

Hér er óháð stofnun eða miðstöð sem fellir dóm yfir því hvernig Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur starfað undanfarin ár og starfar enn og það undirstrikar það sem ég sagði áðan. Þessu til viðbótar er ágæt grein í Morgunblaðinu í dag eftir hv. þm. Lilju Mósesdóttur þar sem hún veltir fyrir sér breytingum sem yrðu með brotthvarfi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá Íslandi. Ég hvet þingheim og Íslendinga alla til að lesa þessa ágætu grein þingmannsins því að hún gæti ekki lýst betur því ástandi og því umhverfi sem við lifum í í dag. Með leyfi forseta ætla ég að lesa lokaorð þessarar greinar:

„Rísum upp sem þjóð gegn innheimtustofnun AGS. Verndum hagsmuni komandi kynslóða og náttúruauðlindir þjóðarinnar.“

Ég hugsa að flest okkar séu komin með upp í kok af þeim kúgunum sem við höfum svo áþreifanlega orðið vör við af hálfu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þessara erlendu ríkja. Það sem mér finnst sem Íslendingi sorglegt í þessu öllu saman er hvernig „vinir“ okkar Svíar taka þátt í þessari aðför gegn okkur og beygja okkur til að taka á okkur þessa Icesave-skuld án þess að skýra það á nokkurn annan hátt en þeir taki þátt í því sem önnur Evrópuríki standa að og það eru Svíar sem eru í forsvari fyrir Evrópusambandið í dag. Þessi vinaþjóð okkar ætti vitanlega að beita sér fyrir öðrum og bættum aðgerðum.

Í Aftenposten í gær birtist grein eftir norskan góðkunningja Íslendinga, Knut Ødegård, sem er rithöfundur og var eitt sinn forstjóri Norræna hússins. Ødegård fer yfir það hvernig Norðmenn hafa brugðist Íslendingum og hann átelur norsk yfirvöld harðlega fyrir að hafa brugðist íslenskri þjóð. Í grein sinni segir Ødegård m.a.: Skammist ykkar. Hann segir við norsk stjórnvöld að þau eigi að skammast sín. Síðan segir hann, með leyfi forseta:

„Stórmannlegra hefði verið af hálfu forríkra Norðmanna í viðurkenningarskyni til Íslendinga fyrir að hafa gefið okkur þjóðarvitund okkar að senda Íslendingum þjóðargjöf, t.d. 10 milljarða norskra króna“ — það eru um 220 milljarðar íslenskra króna — „ekki ölmusu því að Íslendingar eru stoltir, heldur sem kæra þökk fyrir að þeir skrifuðu miðaldasögu okkar.“

Þetta sýnir okkur enn og aftur að við eigum vini í þessum ágætu frændþjóðum okkar í þessum löndum. Fólk hugsar hlýtt til okkar en þetta undirstrikar líka það að sú æpandi þögn sem einkennt hefur ríkisstjórnina og stjórnarflokkana varðandi þetta mál í erlendum fjölmiðlum og á erlendum vettvangi er algerlega óþolandi. Þetta lítur þannig út að ríkisstjórnin hafi ekki lyft litla fingri til að halda á lofti hagsmunum Íslendinga gagnvart þessum erlendu þjóðum, gagnvart erlendum ríkjum, og við erum að súpa seyðið af því.

Af hverju er málstað okkar ekki haldið á lofti í þessu máli? Af hverju er það svo? Getur það verið að það séu tengsl á milli þess og þeirra ríkja sem beita okkur þessum kúgunum, milli Evrópusambandsríkjanna og AGS? Getur verið að það megi ekki styggja aðildarumsóknarferli að Evrópusambandinu? Já, það er ein ástæðan. Það er alveg klárlega ein ástæðan fyrir því að svona er haldið á málum.

Ég er búinn að lesa þann samning gaumgæfilega, sem hér var lagður fram, tvisvar sinnum, og merkja við fjölda greina og gera athugasemdir við hluti sem eru augljóslega ekki í lagi. Stóra myndin af þeim samningi sem nú liggur fyrir er sú að þeir fyrirvarar sem samþykktir voru fyrir nokkrum vikum eru annaðhvort þynntir út eða að þeim er skotið útþynntum inn í viðaukasamning. Stærsti gallinn við að hafa þá inni í viðaukasamningnum er sá að komi upp álitamál eru þau mál rekin fyrir breskum dómstólum. Þar eru þau rekin eftir lögum sem eru skýrð fyrir okkur þar sem samningurinn er túlkaður eftir orðanna hljóðan. Það er því lítið svigrúm til að túlka einstakar greinar með einhverjum öðrum hætti en segir nákvæmlega til um í samningnum.

Því er það rétt sem komið hefur fram hjá mörgum ræðumönnum, að við stöndum nú uppi með veikari samning en við lögðum af stað með. Það eru að vísu mikil vonbrigði fyrir alla þá sem stóðu að þessari vinnu. Hvort sem þeir stóðu að endanlegri samþykkt í þinginu eða ekki lögðu menn á sig mikla vinnu til að reyna að gera fyrri samning eða miðsamninginn skárri en hann var og það tókst. Nú er hins vegar stigið skref til baka og það er mjög mikilvægt að fjárlaganefnd gefi sér tíma til að fara vandlega yfir þær breytingar og kalla til þess sérfræðinga því að málin eru mjög flókin og hafa flækst frekar en hitt.

Það er rétt sem komið hefur fram og það er í sjálfu sér mjög gott að skerpt er á friðhelgi íslenska ríkisins í þessu nýja frumvarpi. Það er í rauninni það eina sem ég hef séð enn þá að sé til bóta í þessum samningi. Hins vegar er rétt að taka það fram að ekki er talað um ef íslenska ríkið á einhvers konar fyrirtæki sem byggist upp á hlutafé eða einhverju slíku, virðist það standa fyrir utan. Það er vitanlega ekki ásættanlegt því að í opinberum fyrirtækjum sem orðin eru að hlutafélögum er kannski eitt hlutabréf sem íslenska ríkið á og svo virðist sem túlka megi það þannig að það sé ekki í þessum fyrirvara. En ef svo er, er það til bóta. Annað sé ég ekki neitt sem er til bóta. Það hefur verið rætt að ráðherra hafi gefið yfirlýsingu sem ég efast um að gildi þegar komið er inn í breskan dómsal, ég hef enga trú á því. Það þarf að fara mjög vandlega yfir þetta plagg því að það er meingallað.

Hér hefur verið rætt um 90% heimtur frá Landsbankanum. Það eru engin ný tíðindi. Það er búið að halda því fram síðan í sumar af skilanefndinni að 90% mundu innheimtast, ég átta mig ekki á hvers vegna gert er svo mikið úr því í dag. Það er alger óvissa um hversu mikið innheimtist af eignum þessa ágæta banka.

Síðan styttist í 23. október, dómsdaginn sjálfan, sem er á morgun. Það verður ekki búið að samþykkja Icesave á morgun og viti menn, það mun ekkert gerast á morgun, það er alveg ljóst.

Ég ætla að ljúka máli mínu með því að lýsa því yfir að ég er mjög ósáttur við að við höfum ekki nýtt þær stofnanir sem við erum aðilar að ásamt þessum erlendu ríkjum til að koma okkar málstað á framfæri. Við eigum vitanlega að vera búin að krefjast margra funda í Norðurlandaráði, í NATO og öðrum alþjóðastofnunum sem við erum aðilar að og krefjast þess að við séum ekki beitt því ofbeldi sem við erum beitt. Það er ekkert sjálfgefið að við mætum sem puntudúkkur á fundi þessara sambanda og þær samkomur sem haldnar eru og látum svona lagað yfir okkur ganga. Við eigum að svara fyrir okkur. Við getum ekki setið undir því sem frjáls þjóð að láta kúga okkur til að taka á okkur skuldbindingar sem enginn hefur sýnt fram á að okkur beri að taka. Það er enginn munur á því að fara fyrir dómstóla og tapa því máli en borga upp í topp, eins og gert er ráð fyrir í þessu plaggi. Þá er betra að láta reyna á það hvort við verðum lögsótt því að þá borgum við hvort sem er alla súpuna, eins og hér stendur.