138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:30]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Að uppistöðu til fólu viðbrögð Breta og Hollendinga eða hugmyndir þeirra að viðbrögðum, sem bárust um hálfum mánuði eða líklega þremur vikum eftir að Alþingi afgreiddi lögin 28. ágúst, í sér að fella fyrirvara Alþingis inn í viðauka samnings, að gera viðaukasamning. Þeir töldu að óumflýjanlegt væri að gera síðan vissar breytingar í framhaldinu þannig að hægt væri að ganga lögformlega og með óyggjandi hætti frá málinu. Því mundi það þurfa fyrir Alþingi á nýjan leik. Gegn því reyndum við að standa eins og við gátum og reyndum að fá fram niðurstöðu sem kallaði ekki á að málið þyrfti aftur fyrir Alþingi, en um það tókst ekki samkomulag. Það sem út af stóð aðallega er það sem nú er í frumvarpinu, stóri lagalegi fyrirvarinn, og hvernig um hann væri búið. Þeir höfnuðu lengi vel að taka yfir höfuð nokkuð mið af því að Ísland áskildi sér þennan rétt og það var m.a. í þeim efnum sem náðist mikilsverður árangur á síðustu metrunum. Við höfnuðum því af okkar hálfu alfarið að sú staða yrði ekki með sambærilegum hætti og Alþingi gekk frá málinu hér í sumar, að Íslendingar héldu þessum áskilnaði sínum til haga og áskildu sér rétt til þess ef aðstæður leyfðu að koma málinu fyrir dómstól og fá úr þessu skorið. Um það voru kannski hvað mestu átökin á síðustu dögunum, hálfa mánuðinum, ef svo má að orði komast, en árangur náðist í þeim efnum eins og frumvarpið ber með sér í lokaatrennunni. Það svarar kannski þeirri spurningu sem hv. þingmaður bar einnig upp.