138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:54]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Frumvarpið er mjög einfalt og skýrt og tvær megingreinar þess standa sjálfstætt hvor gegn annarri, annars vegar ríkisábyrgðarveitingin og hins vegar hinn stóri lagalegi fyrirvari sem við ætlum að áskilja okkur. Samningarnir liggja fyrir sem grundvöllur að því að ljúka þessu máli. Ég held að það sé nú ekki flókið í sjálfu sér að fara yfir það og átta sig á því hvort það sé á þessum nótum sem menn vilja lenda því eða ekki. Hinir efnahagslegu fyrirvarar eru teknir inn í viðaukann, reyndar þó þannig að við eigum valkvæðan rétt í þeim efnum, við getum hvenær sem er óskað eftir því að greiða hægar og á lengri tíma af láninu ef okkar efnahagslegu aðstæður þróast með þeim hætti að við teljum okkur það ákjósanlegt.

Í báðum tilvikum, hinum efnahagslegu fyrirvörum sem og í upphaflega lánasamningnum frá 5. júní, er gert ráð fyrir því að lánið sé endurgreitt að fullu fyrir árið 2024. En með öðruvísi endurgreiðsluferli, ef tekið er mið af uppsöfnuðum hagvexti eða vexti landsframleiðslu, eru greiðslurnar vægari á fyrri hluta tímans en þyngri á síðari hluta tímans. Nú höfum við því í raun og veru í okkar höndum val um hvernig endurgreiðsluferli fellur best að okkar aðstæðum þegar þar að kemur og við höfum það öryggi sem í því er fólgið að greiðslurnar verða á þessum tíma aldrei þyngri en þessi 6% af uppsöfnuðum hagvexti, þó þannig að greiddir séu að lágmarki vextir. Fyrir því eru þau rök að það þekkjast engin fordæmi um samning af þessu tagi þar sem ekki eru greiddir að lágmarki vextir þegar til endurgreiðslu kemur á annað borð. Greiðslufríi tíminn er með því allra lengsta sem þekkist í lánasamningum milli ríkja, eða heil sjö ár, og á þeim tíma eru ekki greiddir vextir, heldur eru eingöngu greiddar eignir búsins inn á reikninginn honum til lækkunar. Hér er því að mörgu leyti um mjög merkilegan lánasamning að ræða og ég spái því að þegar hann verður mönnum kunnur, muni hann vekja athygli, m.a. vegna þess að kjörin á honum eru það hagstæð (Forseti hringir.) að þau eru betri en yfirleitt bjóðast t.d. í löndum í svonefndum „Parísarklúbbi“.