138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[18:56]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einmitt þessi tónn sem veldur mér áhyggjum hjá hæstv. ráðherra. Við skulum aðeins fara nokkra mánuði aftur í tímann.

Allir sem skoða fréttaflutning — nú ætla ég ekki að velta hæstv. ráðherra upp úr ummælum hans þegar hann sagði að glæsileg niðurstaða væri á leiðinni í Icesave-málinu, hann dró það til baka, en allar yfirlýsingar hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra, þegar málið var klárað í júní, voru þess eðlis að við værum bara lukkunnar pamfílar að fá samning eins og þann sem við sátum uppi með. Annað kom á daginn, virðulegi forseti. Síðan í lok ágúst komu hæstv. fjármálaráðherra og forsætisráðherra og sögðu: Þetta er allt innan ramma. Við erum mjög ánægð með þetta. Þetta er allt innan ramma samkomulagsins. — Það stóðst ekki heldur.

Núna kemur hæstv. fjármálaráðherra og útskýrir fyrir okkur að við séum bara alveg í frábærum málum. Það er ekkert hægt að túlka orð hans öðruvísi. En hæstv. fjármálaráðherra hafði ekki rétt fyrir sér í júní. Þetta var ekki eins góður samningur og hæstv. ráðherra sagði hann vera, því fór víðs fjarri, reyndar var samningurinn stórhættulegur þjóðinni og svo gallaður að hann hafði ekki einu sinni þingmeirihluta, hann hafði ekki sinn flokk með sér í því. Það er algjörlega ljóst að þetta er ekki innan ramma samningsins, eins og hæstv. ráðherra sagði fyrir nokkrum dögum síðan. Er þá ekki þess virði að fara yfir þetta stóra mál, þrátt fyrir að hæstv. ráðherra, sem er nú góður „órator“ og sannfærandi í ræðustól, sé aftur orðinn sannfærður um að málið sé stórkostlegt? (Forseti hringir.) Ég segi: Það er algjör nauðsyn.