138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:36]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta eru allt réttmætar athugasemdir hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal. Ég ætla ekki að svara því hér hvernig fjárlaganefnd eigi að haga sinni vinnu varðandi þetta. Ég legg hins vegar áherslu á tvennt í því sambandi: Að leitað verði til færustu sérfræðinga á sviði hagfræði til þess að reyna að átta sig á því hvernig líklegt er að hinn efnahagslegi þáttur muni fara og hvernig líklegt er að framvindan verði miðað við þá útþynningu á efnahagslegu fyrirvörunum sem liggur fyrir í þessu máli.

Varðandi lagalega þáttinn er ég sammála því sem hv. þingmaður sagði að það er mikilvægt að fá álit færustu sérfræðinga, innlendra sem erlendra, og í þessu tilviki breskra, á því hvaða áhrif hinn lagalegi fyrirvari, eins og hann kemur hér fram, mun hafa og hvernig líklegt er að málsmeðferð yrði, kæmi til ágreiningsmála sem gætu haft áhrif á niðurstöðuna. Með sama hætti þarf auðvitað að skoða lagalega stöðu íslenska ríkisins varðandi þetta mál, hvaða úrræði og leiðir í lagalegum skilningi eru fyrir hendi, verði þetta frumvarp samþykkt. Það er því auðvitað ljóst að ásamt því að fjárlaganefnd þarf sjálf að fara vel yfir málið, skoða alla þætti þess, öll fylgiskjöl ofan í kjölinn, mun hún ekki geta unnið verk sitt vel nema fá til þess aðstoð flinkustu sérfræðinga á viðkomandi sviðum. Þó að frumvarpið sé einfalt í sniðum, eins og hæstv. fjármálaráðherra vék að í ræðu sinni áðan, (Forseti hringir.) liggur vandinn mjög oft í smáatriðunum, smáatriðunum í samningstextanum og líka þeim óorðuðu túlkunarreglum sem skipta máli þegar til kastanna kemur.