138. löggjafarþing — 13. fundur,  22. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[19:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Umræðan um Icesave er orðin mjög þreytt. Það eru allir orðnir hundleiðir á þessu. Þjóðin er orðin hundleið á þessu, ráðherrarnir eru orðnir hundleiðir á þessu og þingmenn ekki síður. Það er einmitt það sem er hættan. Það er hættan sem vofir yfir, að menn gefist upp í baráttunni. Nú er það spurningin: Hvað á ég að gera? Hvað á flokkur minn að gera? Ég hugsa að það væri skynsamlegt fyrir minn flokk að láta umræðuna fara tiltölulega hratt í gegn og láta svo hæstv. ríkisstjórn bera ábyrgð á þessu. Það væri eflaust pólitískt sterkast. Þá mundum við geta sagt: Þeir bera ábyrgð á þessu og við frábiðjum okkur alla ábyrgð.

En hvað gerist svo ef eitthvað af þeim dæmum sem ég hef stundum verið að nefna verður að raunveruleika og þjóðin lendir í einhverjum ógurlegum kröggum, unga fólkið flytur allt í burtu og hér verður raunveruleg fátækt sem Íslendingar hafa ekki þekkt síðan 1910 eða 1907 eða eitthvað svoleiðis? Hvað gerist þá? Get ég borið ábyrgð á því og er ábyrgð ríkisstjórnarinnar einhvers virði? Ætlar hæstv. fjármálaráðherra að borga þetta úr eigin vasa? Það vita allir að það er gersamlega vonlaust. Hver er ábyrgðin þá eftir sjö, átta eða níu ár þegar þetta dettur yfir? Þá eru flestir þingmenn hættir á þingi, miðað við það sem hefur gerst undanfarið, miðað við starfsmannaveltuna eða þingmannaveltuna. Hver er ábyrgð þingmanna og hver er ábyrgð mín á þessu?

Við höfum eitt tæki, við stjórnarandstæðingar, við höfum málþóf, getum hreinlega sagt: Við ætlum að fara í málþóf af því að við getum ekki látið þetta ganga yfir þjóðina. Við þurfum að vera í málþófi til loka nóvember því að þá rennur út einhver dagsetning þarna. Lokadagsetningin er alltaf fjárlögin, við gætum verið í málþófi þangað til og það er alveg hægt. Ég ræði þetta í alvöru, frú forseti, vegna þess að þetta er alvarlegt mál. Menn hafa stundum farið í málþóf hérna. Ég man eftir þegar hv. þm. Ögmundur Jónasson var í málþófi til að koma einhverju litlu máli út, vatnalögum eða einhverju svoleiðis. Ég man eftir málþófi þar sem hæstv. forsætisráðherra talaði í tíu klukkutíma í þremur þáttum. Það var ein ræða í tíu klukkutíma til að bjarga Húsnæðisstofnun, sem voru svo engin ósköp í sjálfu sér. Ég tel að þessir hagsmunir séu miklu meiri, fyrirvararnir sem við gerðum í sumar voru tryggingarfyrirvarar, það hafa mjög margir ekki skilið. Það voru ekki einu sinni efnahagslegir fyrirvarar, það voru tryggingarfyrirvarar. En sennilega mundi minn flokkur græða á því að fara ekki í málþóf, sennilega mundi hann tapa á því að fara í málþóf því að þjóðin mundi ekki skilja það og hún er orðin dauðþreytt á þessu máli.

Nú er það spurningin, frú forseti: Hvað á ég að gera fyrir sannfæringu mína og hvað á ég að leggja til? Hvað á flokkur minn að gera, svo ég tali ekki um þingmenn stjórnarliða? Ég tala ekki um þá einu sinni, hvernig þeim hlýtur að líða að samþykkja þessi ósköp bara af því að það verður að koma þessu máli aftur fyrir okkur. Við verðum að koma þessu aftur fyrir okkur, losa okkur við þessa óværu, henda henni aftur fyrir bak þar sem hún getur grafið um sig. Svo getum við haldið áfram að vinna í nokkur ár og svo er allt í einu komið eitthvert illkynja æxli á bakinu.

Hér hafa komið fram ótrúlegar yfirlýsingar frá hæstv. utanríkisráðherra Össuri Skarphéðinssyni af öllum mönnum, og hv. þm. Guðbjarti Hannessyni sem er formaður fjárlaganefndar. Þeir hafa báðir sagt: Alþingi getur afnumið ríkisábyrgðina. — Ó, þetta er svona einfalt? Það hefur ekkert að segja. Þetta eru alveg ótrúlegar yfirlýsingar. Ég hef aldrei nokkurn tíma vitað til þess að einhverjum dytti í hug að afnema ríkisábyrgð. Ég hef ekki einu sinni leitt hugann að því, ég hef alltaf talið að ríkisábyrgð væri með því öruggasta sem til er. Og ef menn ætla núna að fara að gera eitthvað svona óhugsað bara til að koma því aftur fyrir sig með það í huga að þeir geti afnumið þetta allt seinna — ja, mér þætti gaman að sjá upplitið á erlendum viðsemjendum okkar þegar þeir lesa þetta. Það er þá ekki mikið að marka ríkisábyrgð frá íslenska ríkinu ef Alþingi getur afnumið hana sisvona. Ég hélt fyrst að ég hefði ekki heyrt rétt en ég heyrði víst rétt. Allt er þetta til á upptökum.

Í sumar voru nokkrir hugrakkir þingmenn Vinstri grænna sem áttuðu sig á þeirri áhættu sem fólst í samningnum sem undirritaður var 5. júní, ef ég man rétt, og var alveg skelfilegur. Hann var eiginlega eins og Hollendingar hefðu sjálfir samið allan samninginn og Íslendingar hefðu skrifað undir. Þannig var samningurinn. Fjármálaráðherra skrifaði undir hann bara eins og að drekka vatn. Stjórnarflokkarnir veittu umboð til að skrifa undir að samningnum óséðum og allt var þetta á sömu bókina lært, mjög slæmt. Nú virðast þessir uppreisnarmenn, vinstri grænir, vera allir komnir á band ríkisstjórnarinnar nema einn, hv. þm. Lilja Mósesdóttir. Hún virðist enn þá strögla. Þessir þingmenn meta það eflaust þannig hver fyrir sig að það séu meiri hagsmunir á móti minni. Það séu meiri hagsmunir fólgnir í því að fyrsta vinstri stjórn á Íslandi geti sannað sig, komið á góðu velferðarkerfi hérna, góðri samtryggingu og því sem þetta fólk hefur sem hugsjón, ég virði það alveg þótt ég hafi ekki þessa hugsjón sjálfur. Þetta er örugglega mjög erfið staða fyrir hvern og einn að vega og meta af því að þessir uppreisnarmenn gerðu sér nefnilega grein fyrir áhættunni sem var í samningnum 5. júní og það náðist fram ótrúlega góð niðurstaða á Alþingi, ótrúlega góð. Ég kem inn á það á eftir. Núna standa þeir sem sagt þarna og það siglir allt í að þetta verði samþykkt. Ég veit ekki hvort ég á einu sinni að óska hæstv. fjármálaráðherra til hamingju með það, ég get það varla, ég get ekki óskað honum til hamingju með það.

Ég upplifi ríkisstjórnina töluvert þannig að þar eru alltaf loforð og hótanir. Það er einhvern veginn verið að þvinga málin fram með því að lofa og hóta. Ég minnist þess að þegar Evrópusambandsumræðan var til umræðu átti umsókn að lækka vexti, styrkja gengið og ég veit ekki hvað og hvað sem ekki var lofað. Svo var hótað: Ef þetta næst ekki í gegn fellur ríkisstjórnin, þannig að eitthvað náðist fram sem ég fullyrði að meiri hluti Alþingis vildi ekki. Hér komu þingmenn og ráðherrar Vinstri grænna hver á fætur öðrum í atkvæðaskýringu og þær atkvæðaskýringar fara inn í sögubækurnar. Ég minnist sérstaklega hæstv. umhverfisráðherra sem lýsti því yfir að hún væri á móti þessu, á móti öllum samningnum, en sagði svo: Ég greiði atkvæði með honum. Þetta var alveg með ólíkindum. Svona gerist þetta: Með hótunum og með loforðum er einhverju náð fram á Alþingi sem ekki er meiri hluti fyrir. Þetta er ekki lýðræðislegt, frú forseti. En það getur vel verið að ég sjái þetta skakkt af því að ég er í stjórnarandstöðu, ég ætla ekki að útiloka það, kannski er þetta allt saman mjög eðlilegt.

Sama gerðist með Icesave-umræðuna. Í þessu máli er hótað með Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, að hann hjálpi okkur ekki og hann sé notaður til að kúga okkur alveg hikstalaust alla daga. Það eru alls konar hótanir í gangi. Ef við samþykkjum þetta ekki fer allt í rúst hér á landi, hagsmunasamtök, Samtök atvinnulífsins og ASÍ — sem er orðið hreint stjórnmálaafl, flokkur, meira að segja ákveðinn flokkur, sjónarmið ASÍ eru ekkert annað en sjónarmið Samfylkingarinnar — hvetja til að samþykkja þetta og koma þessu frá. Við verðum að gera það, segja þeir. Þetta er þessi sama skammtímahugsun. Þetta er sama skammtímahugsunin og leiddi bankana og útrásarvíkingana í ógöngur. Menn hugsuðu ekki til nokkurra ára, menn hugsuðu til nokkurra mánaða, að koma skipunum úr höfn í næstu viku, um það snýst allt saman. Það snýst ekki um það hvað gerist eftir þrjú ár, fimm ár, tíu ár eða tuttugu ár, hvar þjóðin er stödd þá. Það finnst mér hins vegar skipta verulegu máli.

Ég næ alls ekki, frú forseti, að klára ræðu mína núna þannig að ég ætla að setja mig strax á mælendaskrá í framhaldinu. En ég ætla nú að tala um þá fyrirvara sem við gerðum 28. ágúst sem eru tryggingarákvæði. Ég á hús og ég er tryggður fyrir bruna. Ef húsið mitt brennur fæ ég það bætt. Ég er ekki að hugsa um það alla daga að húsið mitt brenni. Ég segi ekki: Húsið mitt brennur í dag, ég hugsa ekki þannig. Bíllinn minn er líka tryggður. Ég hugsa ekki alla daga: Ég lendi í árekstri í dag, alls ekki. Þó að við hv. stjórnarandstöðuþingmenn bendum á þær áhættur sem geta komið upp er ekki þar með sagt að við spáum þeim. Þessar áhættur koma væntanlega ekki upp og það getur vel verið að árið 2024 verðum við búin að borga allt saman og allir munu segja: Hvað voru menn að æsa sig yfir þessu Icesave í gamla daga? Við erum búin að borga þetta allt saman, við fórum tiltölulega létt með það. Það kostaði svona smávegis, hagvöxtur búinn að vera 4% allan tímann og allt í glimrandi góðum gangi, frú forseti. En það er ekki það sem gerist ef húsið brennur. Ef sú áhætta sem felst í þessum samningi væri nákvæmlega 300 milljarðar liði mér betur, en svo er ekki. Samningurinn er nefnilega ótakmarkaður. Í fyrsta lagi eru það 700 milljarðar, svo er gengi ofan á það þannig að það getur blásið út vegna gengisfalls og auk þess hlaðast á það vextir í sjö ár sem geta verið endalausir. Ríkisábyrgðin er óskaplega stór.

Og hver er áhættan? Í fyrsta lagi að eignir Landsbankans dugi ekki fyrir greiðslunum, ekki eins og gert er ráð fyrir, 75%. Sú barbabrella sem ég heyrði í dag og var svo sem í fjölmiðlum líka — ég fór í gegnum það í andsvari og mun útskýra það betur í seinni ræðu minni hvað er eiginlega að gerast í Landsbankanum, af hverju það er ekki gott sem þar er að gerast. Ég spái því að ef gengið fellur um 3–4% í viðbót er Landsbankinn kominn yfir, hann getur borgað 100% allar innstæðurnar því að það er föst krónutala frá 22. apríl. Hvað gerist þá? Þá fer hann að borga almennar kröfur, kröfur sem menn hafa verið að kaupa út um allan heim á 1 eða 2%. Hvaða hagsmuni skyldi það fólk hafa að krónan falli? Þar sem eignir Landsbankans eru mikið í erlendri mynt batnar staðan stöðugt en innlánstryggingarsjóður er með skuldir í erlendri mynt og þær bera vexti, krafan á Landsbankann er einnig föst í krónutölu, breytist ekki neitt. Staða hans versnar því og versnar, hefur versnað um 48 milljarða síðan í apríl. Það er lauslega reiknað, ég náði ekki að reikna það nákvæmlega, ég reiknaði bara miðað við pund, ég hef ekki reiknað með evrum, en það er hluti af skuldinni. Staðan er ekki góð eins og hæstv. fjármálaráðherra og hæstv. utanríkisráðherra héldu fram. Fréttamenn hafa líka haldið því fram og þykjast hafa reiknað eitthvað. Þetta þarf því allt að taka til og ég á eftir að tala um, eins og ég nefndi í andsvari við hv. þm. Birgi Ármannsson, að flytja ákvæði úr íslenskum lögum inn í samning sem um gilda bresk lög.