138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:00]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Nú ríður mikið á að það sé gott samstarf í samfélaginu á milli ríkisstjórnarinnar, Samtaka atvinnulífsins og Alþýðusambands Íslands. Gerð var tilraun til að koma á svokölluðum stöðugleikasáttmála í sumar sem því miður hefur gengið illa að framkvæma af hálfu ríkisstjórnarinnar.

Í gær hélt hæstv. félagsmálaráðherra áhugaverða ræðu þar sem eftirfarandi orð féllu, með leyfi forseta:

„Ef sjávarútvegur og stóriðja geta ekki þolað hóflega innköllun veiðiheimilda og hóflega auðlindaskatta er spurning hvort við séum yfir höfuð að veðja á réttan hest. Verðum við þá ekki að leita annarra kosta um framtíðaratvinnuuppbyggingu?“

Síðan fylgja þessari ræðu ýmis orð um atvinnulífið sem að mínu mati eru vart eftir hafandi. En það sem er áhugavert vegna þessara ummæla hæstv. félagsmálaráðherra er að maður getur velt því fyrir sér hvort hér sé um að ræða stefnu Samfylkingarinnar, hvort um sé að ræða talsmann Samfylkingarinnar í atvinnumálum. Margir hér inni og í samfélaginu hafa verið þeirrar skoðunar, ranglega að því er virðist, að sú áhersla sem verið hefur á orkuskatta, sem nú þegar hefur flæmt frá stórar fjárfestingar í íslensku atvinnulífi, eigi rót sína hjá Vinstri grænum. Það má skilja m.a. af því að hæstv. iðnaðarráðherra hafi ekki frétt af því að slíkur skattur væri fram undan. Nú virðist það vera þannig þegar menn lesa í ummæli hæstv. félagsmálaráðherra að þetta sé jafnmikið stefna Samfylkingarinnar, það sé sama viðhorfið til atvinnulífsins og hjá Vinstri grænum og er það mikið áhyggjuefni. Það verður segjast eins og er að ég hef varla séð svona ummæli frá samfylkingarmönnum í háa herrans tíð. Þess vegna er ástæða til að spyrja, og ég beini spurningu minni (Forseti hringir.) til hv. þm. Magnúsar Orra Schrams: Er þetta bara einkaskoðun ráðherra eða er þetta í raun og sanni atvinnustefna Samfylkingarinnar að berja niður orkuiðnaðinn og sjávarútveginn?