138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:02]
Horfa

Magnús Orri Schram (Sf):

Frú forseti. Ég þakka fyrirspyrjanda fyrir að vekja athygli á þessari ræðu hæstv. félagsmálaráðherra Árna Páls Árnasonar hjá ASÍ í gær því að að meginstofni er ég mjög sáttur við þá nálgun sem hann hafði þar. Hann tæpir þarna á mikilvægum atriðum sem ég held að sé mikilvægt fyrir okkur að hafa í huga í pólitískri umræðu í dag.

Okkar pólitíska umræða í dag snýst að miklu leyti um stöðu ríkisfjármála. Við höfum orðið fyrir gríðarlegu áfalli í tekjum og gjöldum sömuleiðis. Þá fara menn að horfa til breiðu bakanna, hvar við getum sótt auknar tekjur inn í okkar ríkissjóð. Þess vegna hljómar hann ansi undarlega sá grátkór sem stóru og sterku útflutningsfyrirtækin eru með í dag.

Það er alveg ljóst að sú gengisfelling sem við höfum orðið fyrir á síðustu 12 mánuðum kemur niður á heimilunum, á litlu fyrirtækjunum og meðalstóru fyrirtækjunum í landinu en það eru stóru og sterku útflutningsfyrirtækin sem njóta góðs af þeirri gengisfellingu sem er í dag. Tekjur þeirra eru að aukast. Þess vegna er ekkert skrýtið að stjórnvöld horfi til þess að ef hækka á skatta í þessu landi á að hækka þá hjá þeim sem breiðustu bökin hafa. Hins vegar er mikilvægt að ganga skynsamlega fram, virða þá samninga sem gilda en höfum í huga að skattar á auðlindir, skattar á kolefni og skattar t.d. á ferðaþjónustu með einhverjum hætti þekkjast erlendis. En ég held að það sé mjög mikilvægt að efnahags- og skattanefnd taki þær hugmyndir sem fram hafa komið, hvort sem er um krónutölur eða kílóvattstundir, og velti fyrir sér með hvaða hætti er best að fara í skattbreytingar án þess að það komi niður á þeirri erlendu fjárfestingu sem við viljum sjá í landinu á næstu missirum.