138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:15]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S):

Frú forseti. Ég verð að játa það að ég á dálítið bágt með að skilja þá ræðu sem hér var haldin síðast af hv. þm. Þór Saari. Væntanlega er hv. þingmaður að vísa til samkomulags sem gert var á milli ríkisstjórnarinnar, aðila vinnumarkaðarins, ASÍ og SA, um þessa hluti. Það var ekki gert af minni hálfu, ég er ekki aðili að þessu samkomulagi en ég er þó þeirrar skoðunar að geri menn samkomulag eigi menn að standa við það. Þar kann að skilja á milli mín og ríkisstjórnarinnar í þessu máli sem einhvern veginn hefur talið að hún væri algerlega frí frá því máli sem hún hafði þó sjálf undirritað við þessa aðila.

Það sem ég vildi gera að umræðuefni hér og held að sé miklu mikilvægara er að við höfum leiðir til að bæta upp í gatið á ríkissjóði þannig að við förum ekki þá leið sem hæstv. félagsmálaráðherra hefur því miður verið að tala fyrir, m.a. með þessari ræðu sinni að sé leið út kreppunni, að um leið og við drögum úr ríkisútgjöldunum ætlum við að skella á ofsamiklum skattahækkunum á þær atvinnugreinar þar sem er mesti möguleikinn til að búa til störf. Það eru þúsundir Íslendinga atvinnulausar og þá er það hugmynd félagsmálaráðherra, þess sem er í forsvari fyrir atvinnulaust fólk, að koma og segja: Það á að keyra upp skattana á sjávarútveginn og alla stóriðju, koma í veg fyrir að það sé fjárfest á Íslandi í stóriðju, keyra niður sjávarútveginn. Þetta er lausnin. Að sjálfsögðu, frú forseti, er þetta feigðarflan. Það er mikil gæfa fyrir okkur Íslendinga að við eigum forustumenn í Alþýðusambandinu sem eru ábyrgir menn og konur og við eigum ábyrgt fólk í Samtökum atvinnulífsins og hér og þar innan ríkisstjórnarinnar leynast ábyrgir einstaklingar. En það verður að segjast eins og er að með því að hæstv. ráðherra tali hefur hann sett sig í fullkomna andstöðu við alla þá viðleitni (Forseti hringir.) og alla þá vinnu að reyna að koma hjólum atvinnulífsins aftur á stað á Íslandi og það er miður.