138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:19]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég mótmæli þessari tilfinningaþrungnu ræðu hv. þm. Magnúsar Orra Schrams sem eitthvað virðist hafa misskilið málflutning okkar. En ég held að aðalatriðið sé að við þær aðstæður sem við búum við í dag þurfum við að koma efnahagslífinu aftur í gang. Við þurfum að tryggja að hér verði til aukin verðmæti í samfélaginu vegna þess að við sjáum samdrátt í þjóðarframleiðslu, við sjáum samdrátt í atvinnulífinu og þá veltum við fyrir okkur hvaða leiðir er hægt að fara til þess að komst upp úr þeim hjólförum. Það sem við höfum áhyggjur af og höfum margoft lýst yfir er það að allt sem ríkisstjórnin hefur sýnt frá því að hún tók við völdum er til þess fallið að draga úr möguleikum atvinnulífsins á því að auka verðmætasköpun, draga úr möguleikum atvinnulífsins á því að fjölga störfum og draga þar með úr möguleikum íslensks efnahagslífs á því að ná sér aftur á strik. Það er stóri vandinn. Hættan er sú, hæstv. forseti, að ef við förum leið ríkisstjórnarinnar og reynum að kreista sífellt meira út úr atvinnulífi og heimilum sem hafa minna úr að moða, lendum við í spíral niður á við, við dýpkum kreppuna miklu meira en þörf er á, framlengjum hana og náum okkur miklu síður upp úr þessum vondu hjólförum sem við erum í í dag. Það er hættan. Og allt það sem þessi ríkisstjórn hefur þegar gert og allt það sem hún virðist ætla að gera miðað við fjárlagafrumvarp og áform um skattahækkanir er til þess fallið að festa okkur í lægðinni í staðinn fyrir að ná okkur upp úr henni.