138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

atvinnu- og skattamál -- samgöngur -- lífeyrissjóðir.

[09:21]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir það sem hv. þm. Birgir Ármannsson sagði áðan. Aðgerðir ríkisstjórnarinnar varðandi atvinnuuppbyggingu, varðandi skattlagningu á orkufyrirtæki og sjávarútvegsfyrirtæki eru eingöngu til þess fallnar að hægja á allri uppbyggingu sem gæti komið okkur fyrr út úr þessu erfiða ástandi. Þess vegna vil ég leyfa mér að fagna virkilega yfirlýsingunni sem var gefin fyrir norðan í gær. Það var kominn tími til þess að hreyfa sig eitthvað í þessu máli, enda eru samfylkingarmenn að einhverju leyti orðnir óþreyjufullir. En ég verð engu að síður að lýsa yfir efasemdum og vonbrigðum með þetta háttalag ríkisstjórnarinnar hvernig talað er niður til grunnatvinnuveganna, til sjávarútvegsins og til stóriðjunnar, og þar á meðal eru skilaboðin í minn heimabæ frá 1. þm. Suðvesturkjördæmis, þau eru vond.

Það er svolítið merkilegt að fyrir tveimur árum síðan stóðum við Hafnfirðingar frammi fyrir íbúakosningu vegna þess að við ætluðum að stækka álverið. Gott og vel. Ég var þeirrar skoðunar að við gætum valið um hvort við ætluðum að stækka eða að segja stopp. Ég var þeirrar skoðunar að tala eindregið fyrir því að við ættum að stækka álverið. Það voru miklir hagsmunir fólgnir í því enda var fyrirtækið búið að vera starfrækt í mjög góðu umhverfi síðan 1966, það var farsælt fyrir bæinn okkar og samfélagið allt. Þá var enginn samfylkingarmaður sem treysti sér til að hafa skoðun, hvorki á sveitarstjórnarstigi eða á landsvísu fyrir utan hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur. Þess vegna er mikilvægt að draga fram að fyrsti þingmaður kjördæmisins og þingmaður Samfylkingarinnar, nú ráðherra, Árni Páll Árnason, segir í rauninni: Við ætlum ekki að styðja frekari uppbyggingu í álverinu í Straumsvík. Ég get ekki skilið orð hans á annan hátt, ég get það ekki. Hann talar niður fyrirtækið í sínu kjördæmi og mér finnst það miður. Við eigum miklu frekar að reyna að sammælast um að koma í veg fyrir galnar skattahækkanir ríkisstjórnarinnar til að reyna að koma okkur út úr þessari stöðnun sem við stöndum frammi fyrir í atvinnulífinu.