138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[09:53]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Við erum alls ekki með sama málið því að nú er búið að kollvarpa þeim lögum sem Alþingi setti 28. ágúst sl. Sem dæmi má nefna að búið er að setja alla fyrirvarana inn í samninginn sjálfan og um samninginn gilda bresk lög, eins og ég benti svo margoft á í sumar, þannig að við erum með splunkunýtt mál á ferðinni.

Þingmaðurinn kom inn á í ræðu sinni áðan að þetta væri leiðindaverk og að Íslendingar mundu ekki semja við sjálfa sig. Ég vil benda þingmanninum á og hún á að vita það, frú forseti, þar sem hún sat sem ráðherra í ríkisstjórn, sem hluti af framkvæmdarvaldinu, þegar bankahrunið varð, að það er Alþingi sem setur lög og ekki er hægt að semja um þau. Þegar Alþingi hefur sett lög taka þau gildi þannig að hér er um splunkunýtt mál að ræða.