138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[09:55]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég get að mörgu leyti verið sammála hv. þm. Þórunni Sveinbjarnardóttur um að þetta mál þarf að klára, það þarf að leysa. Þingmenn fóru í þá vegferð í sumar, nokkurn veginn sameiginlega. Þeir gerbreyttu málinu, vondum samningi sem lá fyrir. Þá sögu þekkjum við alla. Hins vegar dugar ekki að koma hingað, hvort sem það er hæstv. fjármálaráðherra eða hv. stjórnarþingmenn meiri hlutans og segja að þetta séu verulega litlar breytingar, bara svona „kosmetískar“ breytingar á frumvarpinu. Það er ekki þannig. Það er búið að kollvarpa þessu og það verður aldrei of oft sagt. Það er verið að reyna að blekkja og þreyta þingheim, þreyta þjóðina á því að setja málið í ákveðinn farveg sem blasir við okkur núna. Það er verið að þreyta þjóðina til niðurstöðu.

Það sem ég vil spyrja hv. þingmann um er hvort það sé ekki alveg öruggt að hún taki undir með mér að þingið hefur alla möguleika og allt svigrúm til að breyta málinu á þann veg (Forseti hringir.) að það geti varið og staðið vörð um íslenska hagsmuni. Getur þingið ekki eftir sem áður breytt málinu eins og það telur henta án þess að fingur framkvæmdarvaldsins séu að grufla í vinnubrögðum hér?