138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[09:56]
Horfa

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf) (andsvar):

Það er rétt, frú forseti, við þurfum að klára þetta. Við fórum að einhverju leyti í sameiginlega vegferð í sumar, stjórnmálaflokkarnir á hinu háa Alþingi, við að semja fyrirvara og klára mál sem stjórnarandstaðan studdi síðan ekki afgreiðslu á, ef ég man rétt hvernig atkvæðagreiðslan fór, en látum það liggja á milli hluta.

Ég er ekki sammála því að verið sé að þreyta þjóðina eða hv. þingmenn til niðurstöðu í þessu máli. Hins vegar höfum við samninga í höndunum við tvo samningsaðila. Ef við breytum fyrirvörunum og ef þingið ákveður núna, sem það getur að sjálfsögðu gert, að breyta lögunum eða gera breytingar á samningnum, höldum við auðvitað áfram samningaviðræðum. Við vitum ekki hvernig það gæti farið en það liggur alveg fyrir hvað mundi taka við. Viðfangsefnið liggur því ljóst fyrir, (Forseti hringir.) þ.e. hvort menn vilja klára þetta á þessum forsendum eða gera eitthvað annað.