138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:02]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þetta svar. Það er algerlega ljóst og algerlega eðlilegt að það munu verða einhver samskipti þarna á milli en ég man eftir því að hæstv. forsætisráðherra minntist á það fyrir einhverju síðan að hún hefði talað við Fogh Rasmussen og hann hefði hringt í Gordon Brown fyrir hana. Hafa engin bein samskipti verið á milli forsætisráðherra Íslands og forsætisráðherra Bretlands um þessi mál þar sem talað er um hryðjuverkalögin og væri ekki rétt að taka þetta upp á vettvangi systurflokkanna að reyna einhvern veginn að leiðrétta þá ósvinnu sem þarna fór fram í október?