138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:26]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir með hv. þm. Ásbirni Óttarssyni að hún var málefnaleg eins og þingmanninum er háttur til.

Hv. þingmaður talaði um verklagið hér í sumar, talaði um hvernig þetta hefði verið í sumar, vígstaðan hafi breyst, að málið hafi þroskast, við tókum höndum saman og náðum árangri í að ná fram betri stöðu fyrir Ísland. Þá langar mig að spyrja hv. þingmann: Er ekki öruggt að við megum breyta málinu núna í meðförum þingsins? Getur hv. þingmaður sagt mér það hvort hún sé búin að lofa því einhvers staðar að ekki megi breyta málinu í meðförum þingsins? Mig langar til að vita hvort það sé ekki öruggt að núna þegar málið fer í nefnd og kallaðir verða til allir þeir sérfræðingar sem voru kallaðir til í sumar, lögfræðingar, hagfræðingar — sem hjálpuðu okkur að bæta málið, hjálpuðu okkur og komu með sína sérfræðiþekkingu inn í þetta mál — ef þeir, þegar þeir verða kallaðir fyrir fjárlaganefnd núna koma og segja, eins og Ragnar Hall, sem hefur verið minnst á hér, hann er sá eini sem hefur tjáð sig mikið um þetta núna í fjölmiðlum, hann segir að það sé búið að tæta niður fyrirvarana — ef það verður eindregin skoðun þessara sérfræðinga að við getum gert betur og að málið sé ekki fullþroskað, er ekki öruggt að hendur þingmanna sem tilheyra stjórnarliðinu séu óbundnar þannig að við getum tekið höndum saman og gert þetta betra ef það kemur í ljós við vinnu nefndarinnar að þess þarf?