138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:32]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hlýt að bera virðingu fyrir þinglegri meðferð málsins. Hér liggur fyrir frumvarp og í framhaldinu þingleg meðferð málsins. Hvernig þingheimur ákveður að taka á því máli er undir honum sjálfum komið. Það er bara svo einfalt. Það er auðvitað ekki á valdi sérfræðinga, á hvaða máli sem þeir kunna að vera, heldur er málið núna á valdi þingsins. Ég lít svo á að það sé komið hingað inn í þinglega meðferð. Það er mitt persónulega mat sem þingmaður. Mitt mat er það, eins og ég hef sagt áður, að núna eigum við að loka þessu máli með því frumvarpi sem fyrir liggur og þeirri forsendu vegna þess að augljóslega ef Alþingi ætlar að taka málið upp aftur munum við horfa fram á að málið sé hugsanlega í upplausn. Það er einfaldlega mitt mat í heildarmyndinni að við eigum að ganga frá því frumvarpi sem fyrir liggur. En ég mundi aldrei mæla gegn þinglegri meðferð málsins og að það fái góða umfjöllun þar.