138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í svona flókinni stöðu eru reyndar ýmsar leiðir í skákinni. Mönnum er fórnað og það er möguleiki á að gera hrókeringar og hvoru tveggja hefur verið beitt í þessari skák nú á síðustu vikum. Hæstv. fyrrverandi heilbrigðisráðherra var fórnað á þessu tafli og ég er ekki í ljósi þeirra ráða sem til hefur verið gripið tilbúinn til að gefa taflið á þessari stundu. Ég trúi því enn og treysti á það að þingmenn muni halda þeirri samstöðu í endataflinu sem nauðsynleg er og spái í þá flóknu stöðu sem á borðinu er og leggja saman í það verk að lágmarka tapið fyrir peðin á taflborði íslensku þjóðarinnar sem kunna að blæða fyrir þá gjörð sem hér stefnir í.