138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:39]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal ítreka það. Ég lít ekki svo á að við séum að gefa taflið, alls ekki. Ég lít svo á að við séum að reyna að tefla til sigurs fyrir hönd Íslands og þar sé mikilvægt að ljúka þessu máli með samkomulagi, ekki vegna þess að ég hefði helst viljað það fyrir ári síðan, svo sannarlega ekki. Ég hefði gjarnan viljað sprengja þetta allt saman í loft upp. En forsagan er eins og hún er. Við erum margsinnis búin að lýsa því yfir að við munum ganga frá þessu máli, margsinnis, til okkar sjálfra og til umheimsins.

Við höfum reynt af mætti að bæta samningsstöðuna og það hefur orðið þó þessi ávinningur sem á borðinu er. Ég held að það sé hluti af því að tefla til sigurs fyrir Ísland núna að ljúka málinu. Það er erfitt og það er þungbært en ég held að það sé þess virði, að það sé minni áhætta en meiri að ljúka því á þeim forsendum sem fyrir eru vegna þess að það er líka að samkomulagið og sáttin er svo mikil í sjálfu sér.