138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:02]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir þá umræðu sem hefur orðið um þetta mál við 1. umr. þess og víkja að fáeinum atriðum sem ég hef þá ekki svarað í andsvörum í umræðunni á meðan hún stóð yfir.

Varðandi það sem síðasti ræðumaður nefndi um möguleg lagaleg álitamál vil ég minna á að með stjórnvöldum hefur unnið í þessu máli hópur lærðra lögfræðinga. Í þeim hópi eru prófessorar og forseti lagadeildar Háskóla Íslands og margir fleiri þannig að ég treysti því að vel hafi verið farið yfir þá hluta málsins. Ég held að það sé hafið yfir allan vafa að engin áhætta er tekin gagnvart stjórnarskránni hvað varðar eitthvert framsal dómsvalds í þessum efnum. Það er fjarri því enda erlendum dómstólum ekki falið neitt vald sem tekur af íslenska dómstóla. Hitt er annað mál að samningsaðilar okkar áskilja sér tiltekinn rétt að leitað sé ráðgefandi álita eða niðurstöður dóma sem séu samrýmanlegir annaðhvort niðurstöðu EFTA-dómstólsins eða fordæmisgefandi dómum Evrópudómstólsins, ekki til að hafa áhrif á niðurstöður íslenskra dómstóla heldur hvað varðar það að víkja til hliðar ákvæðum samninga, sem er allt annað mál og hefur ekkert með lögsögu íslenskra dómstóla að gera eða framsal á dómsvaldi úr landi. Ráðgefandi álit ESA-dómstólsins byggir á EES-samningnum eins og ég veit að hv. þingmanni er kunnugt um. Hafi eitthvert framsal átt sér stað í þeim efnum sem orki tvímælis gagnvart stjórnarskránni þá hefur það átt sér stað þegar EES-samningurinn var samþykktur á sínum tíma en ekki nú. Að öðru leyti vísa ég í það að stjórnvöld hafa notið í vinnslu þessa máls aðstoðar margra af fremstu lögfræðingum landsins eða sérfræðingum í þessum efnum á sviði þjóðaréttar, stjórnsýsluréttar og þar fram eftir götunum.

Menn hafa nokkuð rætt málsmeðferðina og það hvernig samskiptum við erlenda aðila hafi verið háttað í þessum efnum og þá aðallega í framhaldi af lagasetningu Alþingis 28. ágúst sl. Ég get farið aðeins yfir það. Samskiptin hafa fyrst og fremst verið í höndum ráðuneytisstjóra forsætis- og utanríkisráðuneytisins og aðstoðarmanns fjármálaráðherra en tveir af þessum einstaklingum voru jafnframt í fyrri samninganefnd. Að öðru leyti hefur hún ekki verið virkjuð í þessu ferli. Þar til viðbótar hefur sá lögfræðihópur sem vann að málinu í sumar verið virkur og aðstoðað stjórnvöld. Seðlabankinn hefur gert það sömuleiðis og aðstoðarseðlabankastjóri sótt upplýsinga- og kynningarfundinn í Haag til að fara yfir hina efnahagslegu þætti, útskýra útreikninga Seðlabankans og ræða hvernig mat á landsframleiðslu og hagvexti væri háttað. Þar hefur að sjálfsögðu verið stuðst við fagmenn á því sviði í nánari útfærslu á því. Auk þess hafa stjórnvöld haft sér til aðstoðar bresku lögmannsstofuna Ashurst sem veitti sérfræðilega ráðgjöf á því sviði.

Eins og fram hefur komið skrifaði forsætisráðherra starfsbræðrum sínum í Bretlandi og Hollandi bréf þar sem niðurstaða Alþingis var útlistuð og kynnt og farið var yfir málið. Utanríkisráðherra hefur rætt þetta mál á fjölmörgum fundum með starfsbræðrum sínum og ég held að flest ef ekki öll tækifæri sem mér koma í hug hafi verið notuð til að kynna málstað okkar í alþjóðlegum samskiptum á undanförnum vikum og mánuðum. Utanríkisráðherra hefur fundað með Strauss-Kahn, ég og utanríkisráðherra höfum átt fundi með sendiherrum Bretlands og Hollands sameiginlega, ég hef fundað með samningastjórum Bretlands og Hollands til að fara sérstaklega yfir hina pólitísku þætti málsins með þeim. Ég hef fundað með fjármálaráðherra Hollands, ég hef fundað með fjármálaráðherra Svíþjóðar, ég hef átt símtöl við fjármálaráðherra Noregs, ég hef hitt aðstoðarráðherra eða embættismenn frá Þýskalandi, Hollandi, ég hef hitt efnahagsmálaráðherra Hollands, ég hef hitt fulltrúa franskra stjórnvalda, bandarískra stjórnvalda, hitt fjármálaráðherra Bretlands stuttlega, ég hef hitt framkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ég átti símtal við fjármálaráðherra Hollands aftur fimmtudaginn 15. október og þar fram eftir götunum. Ekki man ég þetta nú kannski allt „på stående fod“ eins og Danskurinn mundi segja en menn hafa notað öll þau tækifæri sem gefist hafa til að kynna okkar málstað og reyna að koma honum á framfæri eins og rétt og skylt er. (Gripið fram í: Ekki í síma.) Nei, mikið af þessu hefur verið á fundum, hv. þingmaður.

Það er nú þannig að í mörg horn er að líta. Margs þarf búið við, frændi, og aðstæður íslenskra stjórnvalda hafa kannski ekki verið með auðveldasta móti til að liggja í langferðum erlendis þó mikið sé eftir því kallað. Það hefur verið handtak að vinna heima líka sem þarf að hafa í huga. Menn verða að velja um það hvernig þeir ráðstafa og nýta tímann sem best með hliðsjón af mikilvægi þeirra verkefna sem er hér að sinna. En ég held að ekki sé hægt að kvarta undan því að menn hafi ekki notað öll þau tækifæri og tilefni sem boðist hafa sem og verður að gera í framhaldinu því mikið verk er að vinna í þessum efnum að byggja upp og endurnýja tengsl Íslands við bæði stjórnvöld annarra ríkja, við stofnanir, við fjármálaheiminn, banka og fjárfestingarbanka og lánasjóði og mikilvægt að menn geti sinnt því á komandi mánuðum og missirum því þar þarf að bæta úr ýmsu sem aflaga hefur farið og greiða götu eðlilegra samskipta í þeim efnum á nýjan leik.

Við eigum það örugglega sammerkt, allir hv. þingmenn og þingheimur, að vona að lausn þessa máls verði bæði nú og að lokum eins farsæl og aðstæður okkar frekast leyfa. Við þurfum væntanlega ekki að deila um það. Það má hins vegar að sjálfsögðu deila um mjög margt í þessu máli. Það er ákaflega auðvelt ef menn nálgast það og vilja finna á því fleti. Allt orkar tvímælis þá gert er. Það má deila um margt í aðdraganda þessa máls að sjálfsögðu og hefur verið gert. Það má deila um margt í málsmeðferðinni og málsferlinu, það er líka rétt. Það má deila um það hvar við erum stödd eða hvernig við erum stödd nú. Það má deila um það og hefur að hluta verið gert hvort við eigum núna að reyna að ljúka þessu máli, leiða það til lykta á þeim grundvelli sem í boði er eða gera það ekki og með hvaða afleiðingum og hvaða aðrir kostir séu þá í boði. Það stendur þá upp á þá sem telja að við eigum einhverjar vænlegri eða færari leiðir í þessu en reyna að ljúka málinu nú með hliðsjón af mikilvægi þess að gera það og komast áfram með hlutina eða hvort líklegt sé að vænlegri uppskera fáist með því að halda málinu áfram óleystu og í deilum.

Eitt held ég að sé alveg ljóst og það er að að lokum snýst þetta mál og niðurstaða þess ekki um einhverja samningatækni heldur hlýtur það alltaf að verða efnisleg lausn sem máli skiptir og þær aðstæður sem Ísland er í til að knýja fram eins hagfellda niðurstöðu út úr þessum ósköpum og í boði eru. Sjálfur er ég ekki í nokkrum minnsta vafa um að það þjónar best hagsmunum Íslands að ljúka þessu máli á þeim forsendum sem í boði eru og ég tel að þær séu mun betri en þær litu lengi út fyrir að vera. Í raun er mitt mat á ferlinu það að staða Íslands og málið sem slíkt hafi batnað stanslaust frá því sem var í nóvembermánuði sl. Málið hefur batnað stanslaust síðan miðað við það sem þá gat stefnt í að yrði niðurstaðan.

Svo er það auðvitað þannig, virðulegur forseti, að að lokum verður það framtíðin ein sem endanlega svarar því eins og svo mörgu öðru hvernig okkur vegnar. Þetta snýst þegar allt kemur til alls kannski dálítið mikið um það. Ætlum við ekki að hafa trú á henni og veðja á hana eða leyfa henni a.m.k. að njóta verulegs hluta vafans. Það er auðvitað mjög sjaldan þannig að menn geti keypt sér fyrir fram tryggingar fyrir óorðnum hlutum út í hið óendanlega og það gildir um þetta mál. Það er undirorpið ýmiss konar óvissu. Sérstaklega er óvissan fólgin í því að við vitum auðvitað ekki og höfum enga tryggingu fyrir því hvernig okkur vegnar eða hvernig öðrum vegnar, hvernig hagþróun og hvernig efnahagsþróun verður sem hefur áhrif á verðmæti eigna sem hér eiga hlut að máli og svo margt fleira.

Þegar landnámsmenn komu til Íslands höfðu þeir ekki mikla tryggingu fyrir framhaldinu. Þeir vissu ekki mikið um það hvernig lífið mundi verða í óþekktu landi. En þeir lögðu í hann, bjartsýnir og fullir af trú á framtíðina, þeir ætluðu sér að skapa sér gott líf í nýju landi, hurfu auðvitað frá mismunandi aðstæðum, misgóðum örugglega en þeir gerðu það. Og það má að mörgu leyti segja um okkur Íslendinga að við séum í hliðstæðum sporum að því leyti að nú er að hefjast nýr kafli í sögu þjóðarinnar. Það er að byrja að skrifast smátt og smátt nýr kafli í okkar sögu, kaflinn eftir hrun. Við erum bara á fyrstu blaðsíðunum þar og svo verður það framvinda mála og sagan sjálf sem ræður því hvernig þetta skrifast. En ég held að við eigum að hafa trú á framtíðinni, vera bjartsýn og ætla okkur að láta þetta takast og þá aukast líkurnar á því að það verði. Það er þannig. Trúin skiptir miklu máli í þessum efnum, bjartsýnin og kjarkurinn og viljinn til að sigrast á hlutunum og finna farsælar lausnir. (Gripið fram í: ... líka í bankahruninu.) Nei, við erum ekki þeir, hv. þingmaður.

Ég er ekki í nokkrum minnsta vafa um að nú er það mikilvægt fyrir Ísland að leysa úr stærstu óútkljáðu ágreiningsefnunum sem eftir standa til að við förum að komast í betri stöðu með okkar mál og getum farið að horfa af meiri bjartsýni fram á veginn. Okkur hefur miðað langa leið í þeim efnum. Stærsta einstaka málið í því efni í mínum huga er ef það tekst farsællega að ljúka endurreisn bankakerfisins vegna þess að takist það að uppistöðu til á grundvelli samninga og í samkomulagi við þá aðila sem þar er við að glíma þá er gríðarlega mikið fengið borið saman við það sem annars hefði getað orðið, endalaus og langvinn málaferli sem hefðu ógnað efnahagslegu sjálfstæði okkar og tilveru um langa framtíð. Þessi mál eru líka hluti af því að koma þeim í eitthvert það horf að við getum átt eðlileg samskipti og samstarf við nágrannaríki og alþjóðastofnanir. Ég er mjög bjartsýnn á það að leysist þetta mál nú á þeim grunni sem í boði er og fáum við endurskoðun samstarfsáætlunar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins snurðulaust í gegn í miðri næstu viku þá lagist staða Íslands í þessu stóra heildarsamhengi til verulega mikilla muna. Þetta hefur óleyst staðið okkur allt saman mjög fyrir þrifum og við verðum að horfast í augu við það sem mikilvægan hluta af endurreisninni bæði okkar sjálfra vegna og þess sem er hér hjá okkur sem skiptir auðvitað mestu máli en líka vegna samskipta okkar við aðra að greiða úr þessum málum og koma þeim í eðlilegt horf.

Þetta verða menn að hafa í huga sem og viðkvæma og brothætta stöðu landsins til þess að halda áfram deilum við mikilvæga aðila sem hafa þá það í för með sér sem það óumflýjanlega hefur. Er það þannig sem við sjáum framtíð Íslands áframhaldandi fyrir okkur, að hér séu endalaus vandamál og deilumál uppi, eru það skilaboðin sem við teljum heppilegt að senda frá Íslandi sem hefur dregið að sér mikla athygli umheimsins vegna atburða sem hér hafa orðið? Ég segi nei. Skilaboðin sem þurfa að koma héðan, og auðvitað þurfa þá að vera innstæður fyrir þeim, eru að Ísland sé að ná tökum á sínum málum. Við séum að komast í gegnum þetta, hér séu góðir hlutir farnir að gerast, málin séu að komast á eðlilegan grunn og eðlilegt spor og við séum komin vel á veg með að vinna okkur í gegnum og út úr erfiðleikunum. Það eru dýrmætustu skilaboðin fyrir okkur. Það mun létta róðurinn. Það mun opna dyr sem nú eru lokaðar og þar fram eftir götunum. Það er enginn minnsti vafi í mínum huga að á því þurfum við að halda að greiða úr málunum hverju á fætur öðrum og komast áfram. Við ætlum okkur að vera og verða sjálfstæð, stolt þjóð meðal þjóðanna. Það gerum við best með því að hafa okkar eigin hús í lagi, að vera með okkar mál þannig skipuð en líka með því að geta út á við átt slík eðlileg samskipti.

Ég þakka svo, virðulegi forseti, fyrir þessa umræðu og hafi mér láðst að gera það í fyrri ræðu minni þá geri ég það nú að leggja til að málinu verði að henni lokinni vísað til hv. fjárlaganefndar þar sem ég veit að málið verður í góðum höndum.