138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:20]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hæstv. fjármálaráðherra fyrir að hafa tekið rólegheitapilluna sína í dag og annars málefnalega ræðu og yfirferð hér áðan. En það sem ég vil taka undir með honum er að bankakerfið, endurreisn bankakerfisins er algjört lykilatriði til að við getum farið í að leysa ýmis önnur mál. Hins vegar veldur það mér miklum áhyggjum hvaða viðhorf við erum að heyra og hvaða tónar eru slegnir í garð fyrirtækjanna og atvinnulífsins af hálfu ráðherranna. Síðast í gær af hálfu félagsmálaráðherra. Ég hef því áhyggjur af því með hvernig hugarfari ríkisstjórnin nálgast lausnir á erfiðleikum í atvinnulífinu. Gott og vel.

Trúin á þjóðina, trúin á þingið og trú þingsins á það hvernig fólk og fyrirtæki muni vinna sig út úr vandanum. Það var ákveðin nálgun í sumar með það hvernig við leystum Icesave-málið. Það var ekki þannig að við værum að bjóða Bretum og Hollendingum ekki neitt. Við mundum borga Icesave-skuldina ef hér vegnaði allt vel og gengi allt vel fram til 2024. Ég spyr í ljósi þess hvernig vinnubrögðin breyttust hér í þinginu, hvernig þingið náði ákveðinni samstöðu til lausnar, hvort ekki hefði verið farsælla fyrir ríkisstjórnina að taka málið áfram (Forseti hringir.) og leysa það með þinginu, ekki bara hér í þingsölum, (Forseti hringir.) heldur að taka það áfram og sýna samstöðu meðal þingmanna þegar verið er að ræða (Forseti hringir.) við Hollendinga og Breta.