138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:24]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Formaður Sjálfstæðisflokksins sagði einmitt í þeirri ræðu og lokaorðin hans voru þau „að þingið gæti eftir sem áður alltaf fellt samninginn“. Við skulum halda því til haga, gæti alltaf fellt samninginn. Við skulum líka halda því til haga og það er algjörlega rétt, að framkvæmdarvaldið á að fylgja eftir því sem þingið segir. En framkvæmdarvaldið hefur enga heimild til þess að brjóta lögin sem þingið hefur samþykkt. Og lög voru samþykkt hér í sumar, hvort sem fjármálaráðherra líkar það betur eða verr, og honum ber að fylgja þeim lögum.

Þess vegna er ég að spyrja: Hefði ekki verið farsælla, fyrst ríkisstjórnin var búin að falla hvað eftir annað á vinnubrögðum í hverju stórmálinu á fætur öðru, hefði ekki verið farsælla fyrst í þessu máli, máli sem ríkisstjórnin er búin að segja að allt stoppi á, allt stoppar á Icesave, hefði ekki verið betra þá eftir allt í sumar að taka stjórnmálaflokkana, alla, alla heilu gusuna með sér, til þess að ná samstöðu, breiðri samstöðu og krafti í sínum samningaviðræðum við Breta? Þið félluð á prófinu og farið að horfast í augu við það nú einu sinni. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)