138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:25]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einhver hörgull á rólegheitapillum hérna sé ég.

Ég vil gera athugasemd við eitt í ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Það var þegar hann fór að tala um trú á framtíðina. Ég deili því með hæstv. fjármálaráðherra að við verðum að hafa trú á framtíðina. Hann sagði að við gætum ekki tryggt okkur fyrir allri óvissu framtíðarinnar. Það er vissulega rétt. Ég vil gera athugasemd við þennan málflutning að því leytinu til að það var akkúrat það sem við vorum að gera hérna í sumar. Við vorum að takmarka óvissuna og við vorum að reyna að ná utan um þá skuldbindingu sem á okkur hvíldi.

En ég vildi koma hér upp í þessu stutta andsvari til að ítreka þá ósk sem ég setti fram í ræðu minni í gær og spyrja hæstv. fjármálaráðherra að því hvort það verði ekki örugglega þannig að við fáum ítarlegar fundargerðir yfir alla þá fundi sem hæstv. fjármálaráðherra hefur upplýst að hann og aðrir ráðherrar hæstv. ríkisstjórnarinnar hafa átt með erlendum kollegum sínum, hvort sem það var í Istanbúl, Haag, London eða New York, (Forseti hringir.) hvort það verði ekki þannig að við fáum frekar ítarlegri en hitt, (Forseti hringir.) pakka með öllum þessum gögnum.