138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er mjög ánægjuleg vending hér í þessari umræðu að nú taka allir undir það að við eigum að vera bjartsýn og hafa trú á framtíðina. Það líkar mér vel að heyra. Mér líkar miklu miður að heyra endalaus ræðuhöld um það að hér stefni í greiðsluþrot þjóðarinnar eða að hér verði kannski enginn hagvöxtur, enginn viðgangur í efnahagslífinu á mörgum árum. Menn hafa leiðst út í býsna tæpan málflutning til þess að reyna að finna á því flöt að umbúnaður þessa máls væri ekki nógu góður og efnahagslegu öryggi okkar ekki nógu vel fyrir borgið, með þeim efnahagslegu fyrirvörum og þeim umbúnaði sem nú er kominn inn í þennan samning, sem ég hef einmitt hrósað og sagt að það sé þá þrátt fyrir allt endurgjaldið fyrir hið langa og tafsama ferli, sem hefur auðvitað ekki verið án kostnaðar fyrir okkur. Ég held að okkur öllum sé ljóst að við höfum náð að fá öruggari umbúnað um málið.

Varðandi upplýsingar um fundi og samskipti þá er sjálfsagt mál að reiða það fram og koma því til viðkomandi þingnefndar, en hér í þessu tilviki voru öll megingögn málsins gerð opinber (Forseti hringir.) samtímis, samningarnir þýddir og birtir samhliða frumvarpinu, þríhliða yfirlýsing stjórnvalda birt o.s.frv., (Forseti hringir.) þannig að meginskjölin í þessu máli liggja nú öll þegar fyrir. (Gripið fram í.)