138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:27]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir að taka vel í þessa ósk og bendi á að þetta eru í mínum huga ein af megingögnum málsins, þannig að það er gott ef hæstv. fjármálaráðherra ætlar að beita sér fyrir þessu.

Varðandi aftur trúna á framtíðina. Það er ekki nóg að við höfum trú á framtíðina, við verðum líka að hafa tryggingu fyrir því að ef eitthvað gerist, vegna þess að við erum búin að reka okkur á það og það er það sem við ættum og ætlum að læra af þessu hruni öllu saman, að það er ekki nóg að fara í gegnum lífið og segja: þetta reddast. Það var það sem vakti fyrir þinginu, það var ekki ætlun okkar sem erum að draga gæði þessa samnings í efa, það er ekki ætlun okkar að draga von og trú úr fólki. Þvert á móti. Okkar ætlun er að segja: Við ætlum að gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að þetta verði ekki Íslandi ofviða. Og við eigum að vera saman í því, hæstv. forseti, við eigum að vera saman í því að búa þannig um hnútana að íslenska (Forseti hringir.) þjóðin geti verið viss um það að við göngum öll í takt til þess að gera það þannig (Forseti hringir.) að við getum sofið róleg yfir þessu Icesave-máli öllu saman.