138. löggjafarþing — 14. fundur,  23. okt. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:32]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Margir þingmenn hafa lýst almennum viðhorfum sínum til þessa máls, bæði úr okkar þingflokki og úr öðrum flokkum. Málið kemur hér fram sem stjórnarfrumvarp og samstaða var um að það yrði lagt þannig fram. Síðan eiga þingmenn það algerlega við sjálfa sig hvort þeir gefi upp fyrir fram afstöðu sína til mála eða hvort þeir bíði með það á meðan það fær skoðun í nefnd og þinglega meðferð. Að lokum birtist hin endanlega afstaða á hnappnum hérna. Það er það sem gildir, svo hv. þingmaður hafi það í huga. Ég get upplýst hvað mig sjálfan varðar að iðulega segi ég ekki nokkrum manni neitt um hvernig ég ætla að greiða atkvæði í máli fyrr en ég ýti á hnappinn. Það hefur meira að segja í einu tilviki átt við um stjórnarfrumvarp.