138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[11:53]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir framsöguna. Mig langar að spyrja varðandi þessa greiðslujöfnun og þessar aðgerðir allar saman. Hér er fyrst og fremst talað um að hjálpa fólki vegna íbúðalána en ekkert annað kemur fram en að allar skuldir sem stofnað hefur verið til í sambandi við íbúðakaup falli undir sama hatt. Er rétt að fólk sem hefur t.d. fjárfest stórfellt í hlutabréfum og tapað stórlega á því fái sams konar meðferð og húsnæðiseigendur? Hvaða kerfi er í gangi til þess að skoða það? Eða er ekkert kerfi í gangi til að skoða með hvaða hætti óráðsíufólk, eins og sumir kalla það, fái eftirgjöf á sínum skuldum, ef það hefur verið í stórfelldu braski og tapað á því?