138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[11:57]
Horfa

Frsm. fél.- og trn. (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt að ítreka að sérstök skuldaaðlögun er eingöngu ætluð þeim sem eru í alvarlegum greiðsluvanda. Þeir sem eiga eignir og hafa greiðslugetu til að standa undir sínum skuldbindingum, þótt þær séu gígantískar, munu ekki fá slíka skuldaaðlögun.

Einnig vil ég árétta að hafi fólk farið offari í kaupum á hlutabréfum fyrir lánsfé er það fólk enn til og þarf að lifa. Þá getur lánastofnunin metið hvort hún telur að þessi manneskja eigi bara að fara í gjaldþrot með þeim afleiðingum sem það hefur eða hvort hagsmunir allra liggi í því, velferð einstaklingsins sem í hlut á og hagsmunir kröfuhafa og lánastofnunarinnar, að þessi manneskja fái að halda einhverjum eignum og greiða þó af þeim skuldum sem talið er að hægt sé að fá upp í. Þetta eru erfið matsatriði en í frumvarpinu er mjög skýrt kveðið á um að enginn skuli fá slíka eftirgjöf sem með öðrum hætti getur staðið undir sínum skuldbindingum. Það er ekki verið að gefa neinum neitt í þessum efnum.