138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[11:59]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur fyrir framsögu hennar. Það var einstaklega ánægjulegt að heyra úr munni hv. þingmanns að hið svokallaða „óreiðufólk“ eigi líka að fá hjálp, því hv. þingmaður gekk mjög fram í kosningabaráttunni í vor og taldi að lausnir framsóknarmanna ættu ekki að ná til allra.

Nú liggur þetta frumvarp hér fyrir og okkar fulltrúi í nefndinni skrifar undir það með fyrirvara. Við framsóknarmenn fögnum öllum þeim aðgerðum sem koma til með að hjálpa heimilunum og fjölskyldum, ekki veitir af. Segja má að þetta sé allt of seint fram komið og eins og oft áður er þetta unnið í miklum flýti. 1. umr. var þann 19. október og málið er nú komið með afbrigðum inn á dagskrá þingsins á ný og það á að afgreiða þetta í flýti. Ég hef alltaf varað við því að afgreiða lög í flýti. Ástæða hrunsins er kannski þessi hraði sem er alltaf á lagasetningu hér. Síðan gera þingmenn nánast ekki annað en að vinna lagaviðbætur þann tíma sem þingið starfar út af því að kastað var til hendinni strax í upphafi.

Ég gagnrýni að fólk fari samkvæmt þessu frumvarpi sjálfkrafa inn í þetta nýja kerfi. Ég hefði viljað snúa þessu við og á þann hátt að fólk mundi biðja um að fá að vera aðilar að þessu kerfi. Þó að í nefndarálitinu standi að það eigi að fara fram kynning er fullt af fólki sem vill ekki vera aðilar að þessu en vissulega má fólk segja sig úr því. Mér finnst þetta vera mikill tvíverknaður, þetta hefði átt að vera einmitt öfugt.

Ég ætla að lokum að koma með spurningu til þingmannsins. Af því Samfylkingin á aðild að þessari ríkisstjórn, hvernig sér Samfylkingin þróun fasteignamarkaðarins (Forseti hringir.) í framtíðinni þegar þetta frumvarp hefur fengið lagagildi?