138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:37]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp sem á að aðstoða einstaklinga, heimili og fyrirtæki vegna banka- og gjaldeyrishruns. Það var tími til kominn þó að margt í þessu frumvarpi sé að mínu viti undirstaða potemkintjalda sem verið er að sveipa um þetta mál allt saman. Ég sé að verið er að reka málið áfram með miklum hraða, það er talið að afgreiða eigi það sem lög í dag. Formaður félags- og tryggingamálanefndar sagði að það væri búið að skipa henni að málið yrði afgreitt sem lög frá Alþingi fyrir helgi. Þetta eru svolítið sérstök viðbrögð. (Gripið fram í.) Ha? (Gripið fram í.)

Ég er með nokkrar athugasemdir við þetta frumvarp og mig langar til að flytjendur þess svari þeim kannski eftir því sem efni gefast til. Megingallinn er að ekki er gert ráð fyrir lækkun á höfuðstóli lána sem er grundvallaratriði ef aðstoð við skuldug heimili á að vera marktæk. Það er talað um að einhvern tímann þegar lánstíma lýkur verði sett þriggja ára þak á mismuninn milli vísitölutryggðra lána, þ.e. verðtryggingar samkvæmt vísitölu neysluverðs og greiðslujöfnunarvísitölu, og skuldin sem eftir stendur þar muni falla niður. Í umsögnum við frumvarpið er einfaldlega talið mjög ólíklegt að einhverjar upphæðir muni falla niður.

Samkvæmt frumvarpinu bera þeir mest úr býtum sem skulda mest og það er algjörlega á skjön við allan málflutning Samfylkingarinnar hingað til, eins og fram hefur komið áður í dag. Þar mátti einmitt ekki fella niður skuldir vegna nákvæmlega sama atriðis, að þeir sem skulduðu mest bæru mest úr býtum. Hér er líka að mínu viti verið að fara út í stórfelldar afskriftir vegna hlutabréfalána. Það er svo sem gott og gilt ef menn vilja fara út í stórfelldar afskriftir vegna hlutabréfalána — en hver á að borga þær? Eiga hlutabréfakaupendur að hirða gróðann og skattgreiðendur að hirða tapið? Er þetta með þessum hætti og finnst þá flutningsmönnum frumvarpsins það eðlilegt?

Ég velti fyrir mér hvort öll sú samstaða sem náðist meðal flokkanna í félags- og tryggingamálanefnd stafi af því að þar inni er kannski fólk sem er að fá stórfelldar afskriftir vegna hlutabréfalána. (ÓÞ: Ég á ekki …) (UBK: Bera af mér sakir, frú forseti.) (Gripið fram í: Heyrðu …) Nei, ég er að (Forseti hringir.) velta þessu upp, þetta er eina dæmið þar sem þingmaður …

(Forseti (ÞBack): Forseti vill biðja hv. þingmann að gæta orða sinna.) (Forseti hringir.)

Ég tel eðlilegt að það mál sé einfaldlega skoðað.

Hér segir í umsögn frá Hagsmunasamtökum heimilanna:

„Frumvarpið mun augljóslega bjarga hinum fjölmörgu „óráðsíufjárfestum“ sem ekki eiga eignir fyrir hlutabréfaskuldum sínum.“

Vitað er, að sjálfsögðu, að aðilar um allt samfélagið hafa tekið stórfelld lán til hlutabréfakaupa og það er bara eðlileg krafa að það upplýsist hvort þar á meðal séu þingmenn. Það er ekkert athugavert við það, það er eðlilegt að það sé upplýst. Þær afskriftir verða sýnilega mun meiri hjá húsnæðiseigendum, segir hér, en fjárskuldbindingu vegna kaupa á hlutabréfum upp á hundruð milljóna, ef ekki milljarða, verður nú hægt að færa niður til raunvirðis bréfanna, þ.e. 0. Þetta eru miklu hærri upphæðir en húsnæðiseigendur koma til með fá niðurfelldar og það er einfaldlega eðlilegt að þetta mál sé skoðað. Frumvarpið kemur frá félagsmálaráðherra án samráðs við Vinstri græna eða aðra flokka og án samráðs við Hagsmunasamtök heimilanna sem sendu inn fjölmargar athugasemdir sem ekki var tekið tillit til.

Megingallinn er hins vegar þessi svokallaða greiðslujöfnunarvísitala sem er meingölluð sem mælitæki og sem viðmið, alveg með nákvæmlega sama hætti og vísitala neysluverðs er. Greiðslujöfnunarvísitalan byggist á launaþróun annars vegar og atvinnustigi hins vegar sem fyrir almenning þýðir einfaldlega að þegar Jón Jónsson í næsta húsi fær launahækkun (Gripið fram í.) hækka húsnæðisskuldirnar mínar eða þínar eða allra hinna. Eða þegar Jóna Jónsdóttir í þarnæsta húsi sem var atvinnulaus fær vinnu hækka húsnæðisskuldirnar mínar og þínar og allra hinna, þ.e. skuldirnar hækka algerlega án tillits til greiðslugetu skuldara og eftir alveg jafnfáránlegum reglum og þegar tómatsósan hækkar skuldirnar sé miðað við vísitölu neysluverðs.

Greiðslujöfnunarvísitalan er einfaldlega enn ein rökleysan sem menn ætla að nota til þess að leysa vandamál heimilanna. Það er ekkert öðruvísi en það. Og hér er talað um þetta í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna, með leyfi forseta:

„Upptaka greiðslujöfnunarvísitölu er í flestum tilfellum bjarnargreiði, notkun greiðslujöfnunar mun líklegast ekki leiða til lengingar lánstíma nema þróun launa og atvinnustigs verði mjög óhagstæð til langs tíma.“

Í flestum tilfellum sem ég hef skoðað mun lánstíminn lengjast mjög óverulega eða styttast. Það getur varla verið ætlun Alþingis að stytta lánstíma lánanna. Það hefur verið ein höfuðkrafa Hagsmunasamtaka heimilanna að hinn stökkbreytti höfuðstóll húsnæðislána verði leiðréttur. Greiðslujöfnun leiðir ekki til slíks nema sem fullkomlega óraunhæfs möguleika í lok lánstíma. Hér er því fyrst og fremst verið að veita tímabundið skjól en síðan á að venja landsmenn smátt og smátt við storminn svo mönnum finnist að lokum ekkert hvasst þótt bál sé úti.

Annað atriði er að launahækkanir sem almenningur kemur til með að fá í framtíðinni munu einfaldlega fara beint í að greiða af hærri skuldum sem hækka vegna launahækkananna, vegna tenginganna við greiðslujöfnunarvísitöluna. Fólk festist í alveg sömu skuldagildrunni og fyrr. Launahækkanir almennt verða illa séðar vegna þessa og jafnvel ógerlegar. Hvað segir verkalýðshreyfingin við þessu? Og þegar ég tala um verkalýðshreyfinguna á ég ekki við Gylfa Arnbjörnsson og Alþýðusamband Íslands.

Bætt atvinnustig vegna hagvaxtar skilar sér heldur ekki út í hagkerfið vegna þess að hvort tveggja verður étið upp af hækkunum af afborgunum lána. Skattahækkanir neysluskatta, svo sem virðisaukaskatts á matvæli, verða auðveldar í framkvæmd í framtíðinni og verða örugglega notaðar af stjórnvöldum vegna þess að þær valda ekki hækkun íbúðaskulda sem er í sjálfu sér gott, eða slæmt, og fer þá bara eftir því hvorum megin borðsins menn sitja.

Fall krónunnar verður meðfærilegra vegna þessa og það veldur ekki hækkun á íbúðaskuldum gegnum hækkanir vísitölu neysluverðs sem er sennilega að öllu jöfnu gott líka, en jafnvel hvort tveggja gott eða slæmt og fer þá aftur eftir því hvorum megin borðsins menn sitja. Það er ekki allt einleikið með þetta frumvarp og þessa greiðslujöfnunarvísitölu.

Það góða við frumvarpið er að það bætir skammtímagreiðslugetu heimilanna sem skiptir mjög miklu máli. Það er vel. En það gerir þó jafnframt framtíðarstöðu þeirra verri vegna þeirrar óvissu sem myndast við tvöfalt vísitölukerfi og þetta mun flækja fasteignamarkaðinn enn frekar vegna óvissunnar um eitthvað sem heitir rétt skuldastaða á fasteignum. Og hér eru Hagsmunasamtök heimilanna aftur með umsögn, með leyfi forseta, sem segir meira um greiðslujöfnunarvísitöluna:

„Veit einhver hvernig hún verður til? Notað er orðalagið að greiðslujöfnunarvísitalan sé launavísitala sem vegin er með atvinnustigi en hvernig er þetta gert? Hvernig er atvinnustigið mælt? Þessi vísitala er gjörsamlega óskiljanleg. Síðan tekur mánaðarleg greiðsla breytingum eftir greiðslujöfnunarvísitölu en höfuðstóllinn eftir vísitölu neysluverðs.“

Og í umsögn fjármálaráðuneytisins segir m.a.:

„Ljóst er að með almennri greiðslujöfnun íbúðalána verður kostnaður lántakans meiri þar sem höfuðstóll greiðist hægar niður og vaxtakostnaður því meiri.“

Og í umsögn Hagsmunasamtaka heimilanna um þetta segir, með leyfi forseta:

„Þetta sýnir að greiðslujöfnunarvísitala er bara blekking svo „greiðsluvilji einstaklinga og heimila auk[i]st“. Ekki er ætlunin að koma á nokkurn hátt til móts við lántakendur vegna stökkbreyttra höfuðstóla lána þeirra vegna hækkunar á vísitölu neysluverðs síðustu 2 ár eða svo.“

Megingallinn við þetta frumvarp er náttúrlega sá að það er verið að afgreiða það með allt of miklum hraða frá nefndinni og er óbreytt einfaldlega ekki nægilega gott mál. Þetta mál verður að skoða betur og það þarf að afgreiða það í meira samráði við aðra. Varðandi svo önnur ummæli sem voru hér viðhöfð áðan um þá hefð Íslendinga að búa í eigin húsnæði og að mæra hana út í hið óendanlega eru margir kostir við þá stefnu, en það eru líka mjög margir gallar við hana. Og það má ekki binda fólk á þann klafa að geta ekki búið og komið sér upp heimili án þess að þurfa að binda sig á skuldaklafa til fjögurra áratuga. Það þurfa að vera aðrir möguleikar í stöðunni eins og er einfaldlega í öllum nágrannalöndum þar sem fólk getur átt kost á leiguhúsnæði, fólk getur átt kost á búsetuúrræðum og fjölbreyttari úrræðum en þessum sem hafa viðgengist hér undanfarna áratugi. Nú erum við að horfa upp á það í annað skipti á 25 árum að þúsundir heimila eru að verða gjaldþrota vegna verðtryggingar á íbúðaskuldum.

Ég læt máli mínu svo um lokið hér og vil að það komi fram í restina að ég er ekki að væna hér þingmenn um það að setja hér löggjöf í eiginhagsmunaskyni, ég er heldur að leggja það til að tekin verði af öll tvímæli um að verið sé að því.