138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:48]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta er einhver sú sorglegasta stund sem ég hef upplifað hér í þinginu þar sem ég kem í rauninni hér upp til að bera af mér sakir. Ég sat í þessari nefnd og fullyrði hér að nefndinni gekk það eitt til að reyna að ná sátt um eitt erfiðasta og stærsta viðfangsefni pólitíkusa á Íslandi í dag. Það er enginn í félags- og tryggingamálanefnd að gæta sinna eigin hagsmuna og það er enginn hér á þinginu að setja þessi lög með þessum hraða til að tryggja niðurfellingar sinna eigin skulda. Það er þingmanninum til minnkunar að vera hér með þennan málflutning. Ég óska eftir því að hann biðji okkur afsökunar sem hér hlýddum á mál hans.

Svona málflutningur er ekki það sem við þurfum í dag, hann er ekki til þess fallinn að auka traust almennings til þingsins og almennt bara ekki forsvaranlegur. Við þingmenn höfum öll skráð hagsmuni okkar og hv. þingmanni hefði verið í lófa lagið að kynna sér þá hagsmunaskráningu áður en hann fór í ræðustól Alþingis með þessar fullyrðingar.

Nú minnist ég þess að Borgarahreyfingin, og nú þá Hreyfingin, hefur gagnrýnt mjög vinnubrögðin hér í þinginu og á stundum kallað þetta hús hér leikhús fáránleikans. Hvað hefur Hreyfingin að leggja til málanna til þess að breyta því? Ef það gerist nú hér í fyrsta sinn á þessu þingi að alþingismenn komi sér saman um verklag, komi sér saman um vinnubrögð í þessu stóra, merkilega máli og það er svo gagnrýnt með þessum hætti af Hreyfingunni, hvernig á að breyta vinnubrögðum á Alþingi ef það má ekki viðhafa þau vinnubrögð sem nefndin viðhafði í þessu máli?

Í annan stað tel ég mjög mikilvægt að við tölum af virðingu um þá sem fóru í það ferli að kaupa sér hlutabréf. Mér finnst ekki boðlegt að tala um það fólk sem óráðsíðufólk. Við getum tekið dæmi af fólki í Húnavatnssýslu, venjulegu fólki sem býr þar um alla sveit og ætlaði sér að styrkja sparisjóðinn sinn en skuldar nú, (Forseti hringir.) heilu flokkarnir af fólki þar í sveit, miklar fjárhæðir sem það kemur aldrei til með að geta greitt. (Forseti hringir.) Þetta er ekki óráðsíðufólk, frú forseti, þetta er einfaldlega fólk sem tók ranga ákvörðun byggða á rangri ráðgjöf. (Forseti hringir.)