138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:50]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hefur komið fram í máli mínu áður að ég er ekki að væna þingmenn um að reka hér eiginhagsmunapólitík í þessu máli. Það er í þessu frumvarpi hins vegar, að því er mér virðist og ég hef ekki fengið nægilega greinargóð svör við því, gert ráð fyrir niðurfellingu skulda vegna hlutabréfakaupa. Það er ekkert um hagsmunaskráningu þingmanna sem lýtur að því á vef Alþingis. Ef þingmenn eða aðrir eru stórskuldugir vegna hlutabréfakaupa er það bara svoleiðis. Mér finnst hins vegar eðlilegt að það komi fram hvort svo sé ef Alþingi setur slíka löggjöf. Ég held að það sé bara alveg sjálfsögð krafa. Og ég sé ekkert athugavert við það.

Ef ég hefði tekið lán vegna hlutabréfakaupa og ætti von á að fá þau felld niður fyndist mér alveg sjálfsagt að gefa það upp, það þarf ekkert að vera neinn feluleikur við það og fólk þarf ekkert að vera viðkvæmt fyrir því.

Ég man nú ekki meira, jú, hún var að tala um niðurfellingu skulda hjá fólki í Húnavatnssýslu sem tók stórfelld lán til kaupa á stofnfjárbréfum í sparisjóði, ekki rétt? Vissulega var fólk í fjölda tilfella platað til að kaupa hlutabréf. Og það á alla mína samúð skilið, að sjálfsögðu, en það er spurning hvort það eigi að velta því öllu saman yfir á skattgreiðendur. Ég held að það sé ráð að skilja á milli heimila fólks og fjárfestinga þess í öðrum hlutum. Það er einfaldlega svoleiðis að heimili fólks eru heimili þess og njóta töluverðrar sérstöðu. Það á að meðhöndla skuldamál þeirra með öðrum hætti en venjulegra fjárfestinga.