138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:52]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka þá kröfu mína, og ljúfa beiðni jafnframt, til hv. þingmanns að hann biðji okkur afsökunar á þessum ummælum sínum. Þetta er ekki boðlegur málflutningur og það er bara betra fyrir okkur öll, vegna þess að við komum til með að vinna saman héðan í frá í þinginu, að við berum svolitla virðingu hvert fyrir öðru og hvernig við störfum hér.

Ég bara ítreka þessa beiðni mína.

Ég vil líka að þingmaðurinn upplýsi mig um það hvernig hann sér fyrir sér að við breytum vinnulagi Alþingis, hver er stefna Hreyfingarinnar í þeim málum? Það þýðir ekki að gagnrýna bara á neikvæðan hátt, maður verður að hafa eitthvað til málanna að leggja. Ef það má ekki vinna svona í nefndum Alþingis, hvernig eigum við þá að byggja upp traust á Alþingi og hver eru hin nýju vinnubrögð sem Hreyfingin hefur til málanna að leggja?