138. löggjafarþing — 15. fundur,  23. okt. 2009.

aðgerðir í þágu einstaklinga, heimila og fyrirtækja vegna banka- og gjaldeyrishrunsins.

69. mál
[12:53]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er það ljúft og skylt að biðja hv. þm. Unni Brá Konráðsdóttur afsökunar ef ég hef sært hana.

Hvað varðar vinnubrögð Alþingis hefur það komið fram hjá fleirum en mér hér í dag að þetta mál er unnið með miklum hraða, þetta er mjög viðamikið mál og félags- og tryggingamálanefnd er skylt að þetta mál verði afgreitt sem lög frá þinginu í dag. Það er einfaldlega allt of mikill hraði á þessu máli. Það var tekið inn í þingið eftir 2. umr. með afbrigðum og ég tel eðlilegt að málið fái lengri og betri meðferð og farið verði yfir alla þessa þætti þess, m.a. komi það ítarlega fram í frumvarpinu hvaða skuldir nákvæmlega er verið að fella niður og hvernig. Það er ekki rétt að hér sé verið að blanda saman skuldum heimila fólks og skuldum vegna annarra fjárfestinga í einu og sama frumvarpinu. Það er einfaldlega ekki rétt aðferð við vinnu mála.